141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[11:26]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn á greiðum við atkvæði um að rannsóknarnefndir flug-, sjó- og umferðarslysa verði færðar undir einn hatt. Það fyrirkomulag sem haft er í dag hefur reynst mjög vel. Það er mat umsagnaraðila að sameiningin muni draga úr sjálfstæði rannsóknarnefndanna. Hagræðingin sem af þessu hlýst er mjög óljós og efast margir um að samlegðaráhrif verði af sameiningu þessara nefnda. Við munum því greiða atkvæði gegn sameiningunni. Hún er ekki rökstudd fyllilega og ekki búa nein skynsemisrök að baki henni að okkar mati.