141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi leggja áherslu á í máli mínu og fyrra andsvari við hv. þingmann var að það komu ekki fram neinar breytingartillögur, neinar tillögur frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni varðandi þrengri skilgreiningu á hlutverkinu. Það er kjarni málsins. Við ræddum þetta í nefndinni, það var ekkert sérstakt áhugamál hjá meiri hlutanum að þrengja að Ríkisútvarpinu í því efni. Ég nefndi áðan að ég er tilbúinn að hlusta á öll sjónarmið og skoða allar tillögur sem kunna að vera skynsamlegar í því efni en þær komu aldrei fram.

Varðandi 16. gr. tek ég undir það með hv. þingmanni að við eigum að fara mjög varlega í því að veita opnar heimildir til Ríkisútvarpsins varðandi það að breiða úr sér yfir á ný lönd, ef svo má segja. Það var ástæðan fyrir því að við töldum mikilvægt að þrengja heimildina og setja inn skilyrðingar varðandi þá (Forseti hringir.) heimild sem stofnunin hefði í því efni.