141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einmitt það sem gerist, ríkisstjórnin hefur jafnframt löggjafar- og fjárveitingavald og hún getur breytt hvoru tveggja. Þetta vita starfsmennirnir líka, þannig að jafnvel þær breytingar sem menn eru að gera hérna, þegar þeir eru sem sagt að yfirgefa ríkissjóð og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að hann standi undir sér — það getur komið með næsta fjármálaráðherra að hann segi að nauðsynlegt sé vegna reksturs spítalanna o.fl. að skerða þetta gjald aftur. Þetta vita starfsmenn Ríkisútvarpsins og þeir vita hver skipar þetta kerfi allt saman. Allt kerfið er skipað og stjórnað af ríkisstjórninni og meiri hlutanum á Alþingi. Verið getur að það breytist og að þar komi inn menn sem eru kannski ekki eins hlynntir þessum fjölmiðli og aðrir. Og það vita starfsmenn Ríkisútvarpsins. Um leið og stjórnarskipti verða fara þeir að fjalla mjúklega um nýja herra í stjórnarráðinu.