141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að benda á að mjög breið og góð samstaða náðist um málið í allsherjar- og menntamálanefnd. Það eru eingöngu fulltrúar eins flokks sem eru á móti, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins standa ekki að áliti meiri hlutans. Ég held því að áhyggjur hv. þm. Péturs H. Blöndals um að næsti stjórnarmeirihluti muni kollvarpa þessu og vera með meiri íhlutun í starfsemina séu óþarfar, en auðvitað er ekki hægt að gefa sér neitt í þeim efnum hvað framtíðin beri í skauti sér.

Síðan hef ég það mikið traust á því fólki sem vinnur hjá þeirri stofnun að ég tel að það hafi nægilegan grundvöll til þess að vega og meta hlutina sjálft og hafi þá dómgreind sem til þarf til að fjalla um samfélagsmálefni án þess að lyppast niður af ótta við að umfjöllun þess geti haft afleiðingar fyrir fjárhagslega afkomu stofnunarinnar í framtíðinni.