141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[13:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Lengi lifi Evrópusambandið og þær margvíslegu réttarbætur sem það hefur á tíðum fært íslenskum almenningi. Hér er rætt hvort áhrif Evrópulöggjafar geti orðið þau að framkvæmd á lánveitingum verðtryggðra lána á Íslandi reynist ólögmæt. Úr því verður ekki skorið hér, það mál ræðst fyrir dómstólum. Ég hef hins vegar fyrir nokkuð löngu síðan vakið athygli á því í ræðustól þingsins að vafi gæti verið á lögmætinu og það hefur út af fyrir sig verið til umræðu. Verkefni okkar er auðvitað fyrst og fremst að svara því hvort framkvæmdin hafi verið rétt og hvort hún hafi verið siðleg. Ég hef ítrekað lýst því sjónarmiði að hún hafi verið röng og ósiðleg vegna þess að það hafi einfaldlega verið upplýst um of lága verðbólguviðmiðun, t.d. verðbólgumarkmið Seðlabankans, þegar fólk með takmarkaða möguleika á því að setja sig inn í sérfræðiþekkingu á fjármálamarkaði hefur verið að taka ákvarðanir um lán.

Því verður að breyta og þess vegna hafði efnahags- og viðskiptanefnd þingsins þegar gert ráðstafanir til breytinga á frumvarpi til laga um neytendalán þegar svar barst síðan frá Evrópusambandinu sem er nokkuð á svipuðum slóðum. Það er einfaldlega mjög mikilvægt að neytendur fái upplýsingar um þann kostnað sem fylgir ákvörðunum en það er auðvitað erfitt þegar við erum með það háa vaxtastig sem hér er og hefur verið.

Ég tel mikilvægt að við hverfum til þess fyrirkomulags sem eru óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum sem tíðkast í löndunum í kringum okkur. En þá afhjúpast auðvitað kjarni vandans sem er staða íslensku krónunnar sem flokkur hv. málshefjanda, Framsóknarflokkurinn, hefur þegar tvisvar sinnum á yfirstandandi kjörtímabili hafnað með því að kalla fyrst eftir því að við skoðum að taka upp norsku krónuna og síðar upp Kanadadollarann til að komast hjá þeim skavönkum sem fylgja því að reyna að reka minnsta (Forseti hringir.) fljótandi gjaldmiðil í heimi.