141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:09]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna að við höfum varið mjög miklum tíma í allsherjar- og menntamálanefnd á kjörtímabilinu í umfjöllun um Ríkisútvarpið. Það var á heildina litið mjög gagnleg yfirferð. Við höfum komið víða við. Við höfum reynt að fjalla um alla þætti málsins en að sjálfsögðu höfum við fjallað mjög mikið um hlutverk Ríkisútvarpsins, sem er náttúrlega meginmálið. Er réttlætanlegt að halda úti fjölmiðli í almannaþágu fyrir skattfé? Ef svarið er já þarf að skilgreina hlutverkið mjög afdráttarlaust og hvað fjölmiðillinn á að fást við og hvernig.

Á örmarkaði eins og íslenska fjölmiðlamarkaðnum verður Ríkisútvarpið alltaf risi, það er alveg sama hvernig málunum er fyrir komið. Við ræddum mjög mikið hvort skerða ætti stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, og þá með hvaða hætti, til að fleiri frjálsir miðlar, hverjir sem þeir eru og verða í framtíðinni, eigi sér lífsvon og geti starfað á þessum litla markaði. Margir í nefndinni og fleiri sem komu fyrir nefndina vildu stíga stærri skref. Sjónarmið umsagnaraðila voru auðvitað mjög mismunandi eftir því hvar hagsmunir manna lágu og auðvitað hafa margir hugsjónir í því efni. Sumir telja að Ríkisútvarpinu væri betur borgið ef það væri eingöngu rekið fyrir skattfé, ef það væri tekið út af auglýsingamarkaði og miðlaði ekki auglýsingum. Aðrir segja að það sé partur af hlutverki útvarpsins að vera miðill þar sem bæði fyrirtæki og almenningur og stjórnmálaflokkar, ef því er að skipta, geti keypt auglýsingar og komið skilaboðum á framfæri. Afstaða fólks til þess hvernig útvarpið ætti að vera á auglýsingamarkaði spannaði allt litróf regnbogans.

Ég held að það sé ábyrgt og varfærið að stíga lítil en ákveðin skref í þessa átt. Niðurstaðan varð sú að taka á því sem mesti styrinn og óánægjan stæði um sem var kostun á sjónvarpsefni, sem hefur verið mjög umfangsmikil og hefur skipt miklu máli. Við mælum fyrir um það í 7. gr. að Ríkisútvarpið setji reglur um birtingu viðskiptaboða og kostun dagskrárefnis samkvæmt þeirri grein, þar með talið rof á dagskrárefni vegna birtingar og viðskiptaboða, og skulu þær birtast á vef þess. Kostun verður því ekki heimil eftir að frumvarpið er orðið að lögum nema um sé að ræða mjög íburðarmikla atburði og er það ágætlega skilgreint í nefndaráliti. Hv. framsögumaður málsins, hv. þm. Skúli Helgason, gerði mjög vel grein fyrir öllum helstu breytingartillögunum í ágætri yfirferð yfir málið fyrr í dag.

Í ákvæðinu sem ég nefndi áðan er mælt fyrir um að reglur verði skilvirkar og gagnsæjar svo draga megi úr umsvifum Ríkisútvarpsins á markaðnum enda er eitt af markmiðum frumvarpsins að draga úr vægi viðskiptalegra sjónarmiða í starfsemi þess og stuðla að eðlilegu samkeppnisumhverfi á fjölmiðlamarkaði. Leggur meiri hlutinn til breytingar í samræmi við 37. gr. fjölmiðlalaga, að í ákvæðinu verði kveðið á um að viðskiptaboð skuli skýrt afmörkuð frá öðru dagskrárefni Ríkisútvarpsins. Mikið var fjallað um það. Samkvæmt fjölmiðlalögum falla bæði kostunartilkynningar og auglýsingar undir hugtakið viðskiptaboð en með þessari breytingu mundi framangreint ákvæði líka eiga við um slíkar tilkynningar.

Eins og ég nefndi áðan fjölluðum við heilmikið um það með hvaða hætti skilgreina og afmarka ætti hlutverk Ríkisútvarpsins og mun aldrei fást niðurstaða í það, en við teljum að því sé ágætlega fyrir komið núna. Fjallað var um skuldbindingar Ríkisútvarpsins til þess að miðla efni af landsbyggðinni, hvernig best væri að reka starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins og er í 3. gr. frumvarpsins fjallað um skyldur og hlutverk Ríkisútvarpsins og helstu markmið þess við rekstur fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Þar segir að Ríkisútvarpið skuli framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni með mismunandi tæknilegum aðferðum til allra landsmanna óháð búsetu og að útvarpið skuli gera ráðstafanir til að hægt sé að flytja fréttir og framleiða efni utan höfuðborgarsvæðisins. Við töldum ekki rétt að nefndin eða Alþingi ákvæðu með hvaða hætti Ríkisútvarpið ætti að standa að því. Það er sjálfsagt að gera það út frá hagkvæmni og því hvernig það skipuleggur mannafla sinn við þá þjónustu eins og alla aðra. Það var alls ekki tilgangurinn að hlutast um útfærslu á því markmiði en við áréttum að það er eitt af meginmarkmiðum Ríkisútvarpsins að þjóna fólki um allt land.

Það var góð samstaða í nefndinni þrátt fyrir, eins og ég sagði áðan, að litróf viðhorfa til einstakra greina og þátta væri mjög breitt og breytilegt. Það gekk þvert á flokkslínur.

Samt má segja að það er ánægjulegt að þverpólitísk samstaða ríki um það á Íslandi, þvert á stjórnmálaflokka og aðrar fylkingar, hópa og strauma í samfélaginu, að haldið skuli út ríkisútvarpi. Það er alls ekkert sjálfgefið. Spurningin er aftur hvernig því er fyrir komið; eigum við að fara sömu leið og BBC og norrænu stöðvarnar, að taka það meira og minna taka út af markaði? Þá komum við aftur að smæð markaðarins og því hversu fámennur hópur fólks stendur á bak við reksturinn. Ef við skiptum því niður eftir höfðatölu er upphæðin sem hver Íslendingur borgar með íslenska Ríkisútvarpinu margfalt hærri, sjálfsagt mörghundruðsinnum hærri en t.d. breskur almenningur í 70 milljóna landi borgar í rekstur á því risafyrirtæki og fjölmiðlaveldi sem BBC er.

Það verður alltaf kostnaðarsamt en sem betur fer er vilji til að halda úti öflugu ríkisútvarpi, sérstaklega til að miðla samfélagslegu og fréttatengdu efni og til að tryggja jafnræði í aðgengi fólks að öflugum fjölmiðli sem miðlar bæði fræðsluefni og skemmtiefni, vönduðu efni, bæði leiknu efni og fræðslumyndum. Ríkisútvarpið hefur þróast töluvert á síðustu árum til betri vegar. Það er mjög öflugt fyrirtæki eða stofnun, ef svo má segja, sem sinnir sínu hlutverki alveg prýðilega þó að auðvitað sýnist sitt hverjum um ýmislegt. Öll höfum við skoðanir á fjölmiðlum og því efni sem fjölmiðlarnir miðla hverju sinni.

Þá er fjallað um textun og táknmálstúlkun, sem er mjög mikilvæg viðbót við grunnþjónustu Ríkisútvarpsins. Maður hefur séð hvernig slíkar erlendar stöðvar miðla efni meira og minna textuðu og túlkuðu til að tryggja aðgengi heyrnarskertra og heyrnarlausra að efninu. Í 6. gr. frumvarpsins er fjallað sérstaklega um það. Sérstaklega er kveðið á um aðgengi heyrnarskertra að sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins, en ákvæðið er nýmæli og er þar gerður sá áskilnaður að Ríkisútvarpið skuli veita heyrnarskertum aðgang að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum er henta í því skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma, sem taka stakkaskiptum án þess að við sjáum mikið inn í framtíðina hvernig tæknin mun breytast. Það er nánast orðið hægt að texta hið talaða orð jafnóðum með tiltölulega ódýrri og einfaldri tækni þannig að á næstu missirum munum við örugglega sjá allt efni í ríkisreknum stöðvum verða meira og minna textað.

Við í meiri hlutanum áréttum mikilvægi þess að tryggja heyrnarskertum greiðan aðgang að upplýsingum sem Ríkisútvarpið miðlar og auðvelda þeim þannig að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Við bendum einnig á grein um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og að íslenskt táknmál sé fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Sú ákvörðun Alþingis frá því fyrir liðlega ári síðan, sem var tímamótaákvörðun og mikið mannréttindamál þegar samþykkt var að táknmál væri fyrsta mál þessara hópa, leggur mjög ríkar skyldur á herðar almannamiðlinum, sem við skattgreiðendur höldum úti með nefskatti og öðrum hætti, að miðla efninu þannig að þessir hópar geti notið þess og numið á sínu fyrsta máli.

Við bendum á það í nefndarálitinu það sé skylda stjórnvalda að styðja við þessa ákvörðun. Er það álit meiri hlutans með hliðsjón af framangreindu að rétt sé að leggja til þá breytingu að skylda Ríkisútvarpið til textunar á öllu fréttaefni og eftir atvikum öðru dagskrárefni þar sem um sé að ræða brýnt jafnréttismál fyrir hluta þjóðarinnar.

Um það var mikil samstaða í nefndinni og lögðum við okkur mjög fram um að ná þeirri breytingu inn. Við ræddum það töluvert á liðnum þingum á síðustu árum, t.d. lagði hv. þingmaður Frjálslynda flokksins, fyrrverandi varaþingmaður, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, fram mál í þá veru. Ég vildi sérstaklega nefna þetta mál. Mér þykir mjög mikilsvert og ég er mjög ánægður með það að þetta skuli koma fram.

Eins og ég sagði áðan var það almennt álit í nefndinni, þvert á alla stjórnmálaflokkana og fulltrúa þeirra í nefndinni, að þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram væru allar til bóta fyrir Ríkisútvarpið, styrktu þennan mikla fjölmiðil og breyttu honum til batnaðar og umgjörð hans og umhverfi. Við náðum þeim árangri að sjö þingmenn af níu eru á nefndaráliti meiri hlutans sem við afgreiddum úr nefndinni fyrir nokkrum dögum síðan, að vísu með fyrirvara eins þingmanns, hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Og þó að þingmenn Sjálfstæðisflokks séu ekki á nefndarálitinu tóku þeir svo sannarlega mikinn þátt í vinnunni. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, hafði mikil áhrif til góðs á framvindu málsins og tók mjög einbeittan og ábyrgan þátt í starfinu. Skipti aðkoma hennar að málinu og þekking hennar á Ríkisútvarpinu mjög miklu máli fyrir það að við náðum þessari jákvæðu niðurstöðu. Bind ég vonir við að mjög breið samstaða verði um málið í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. þó að ekki sé hægt að fullyrða um að hún verði samhljóða, en vonandi gengur hún því sem næst.

Ég vildi nefna að á lokasprettinum skilaði nefnd undir forustu Finns Becks af sér niðurstöðu varðandi aðkomu og aðgengi fylkinga eða flokka í þjóðaratkvæðagreiðslu, þingkosningum og forsetakosningum að Ríkisútvarpinu. Fram kom tillaga um frjálsan tíma. Það var þannig í þó nokkrum kosningum alveg til ársins 2007 að flokkarnir fengu um 20 mínútur hver, skiluðu inn spólu, eins og það er kallað, sem sagt tilbúnu efni, langri auglýsingu sem sýnd var á ágætum sjónvarpstíma. Í rauninni var niðurstaða nefndarinnar um hvort þetta yrði endurvakið með einhverjum hætti sú að allir fengju tiltekinn ókeypis tíma. Það olli nokkrum ágreiningi um hvort það skaraðist á við ritstjórnarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins að skylda það til að sýna efni til kynningar á framboðum og flokkum og frambjóðendum sem það hefði enga aðkomu að.

Ég held að við höfum náð góðri niðurstöðu þar og var ágæt sátt um það í nefndinni. Það má alltaf bæta við síðar ef menn telja að það auki við það sem við leggjum til ef fylkingar og framboð fá frjálsan tíma, eða „free airtime“, eins og það var kallað. Þetta skarast í raun ekki við hlutverk Ríkisútvarpsins. Í 7. tölulið 2. mgr. 3. gr. leggjum við til að Ríkisútvarpið skuli kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða og frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum, og greina ítarlega frá niðurstöðum kosninga. Þá skal veita öllum gildum framboðum til Alþingis og forsetakosninga, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi og skal Ríkisútvarpið birta reglur þar að lútandi. Í alþingiskosningum er heimilt að takmarka útsendingartíma þeirra framboða sem ekki bjóða fram í öllum kjördæmum þannig að þau fái hlutfall af heildarútsendingartíma til samræmis við það hlutfall kjördæma sem þau bjóða fram í.

Við teljum að það sé ágætisniðurstaða. Auðvitað er hún ekki alveg samhljóða tillögu nefndarinnar, sem vann mjög gott starf og hefði í sjálfu sér alveg mátt skoða það að hafa tillögu þeirra þarna líka, að framboðin fái ákveðinn auglýsingatíma ókeypis og skili bara inn því efni. En ég held að þetta sé heppilegt skref í rétta átt. Það er útskýrt ágætlega í nefndarálitinu hvað átt er við. Ekki er átt við að hvert framboð fái tvær mínútur í einhverja örkynningu rétt fyrir kosningar heldur mun Ríkisútvarpið fjalla með ítarlegum hætti um helstu stefnumál og stöðu viðkomandi framboða. Reynist það ekki nægjanlega vel eða verði ágreiningur um það, eins og var fyrir fjórum árum um umfjöllunina fyrir kosningarnar, verður það bara endurskoðað. Það er þá ekkert mál að bæta við greinina ef talin verður þörf á því eftir kosningarnar í vor að framboðin fái að auki frjálsan auglýsingatíma. Ég held að þetta muni reynast vel og sé farsæl og ágæt lending.

Almennt náðist mjög góð samstaða um málið, um þær breytingartillögur sem við leggjum til. Auðvitað skiptir miklu máli að bærileg samstaða og friður sé um umgjörð opinbers fjölmiðils í almannaþágu þó að við höfum alls ekki tæmt umræðuna í nefndinni um hlutverk og endanlegt skipulag á stofnuninni, fjarri því. Við teljum að allar tillögurnar séu mjög til bóta og styrki stöðu Ríkisútvarpsins og auki samstöðu, sem þarf þó að halda við, um rekstur á ríkisútvarpi í almannaþágu þar sem hver einasti Íslendingur á fullorðinsaldri leggur hlutfallslega töluvert mikið af mörkum til rekstrar útvarpsins miðað við aðrar þjóðir.

Hér eru stigin skref, varfærin en ákveðin, í þá átt að þrengja aðeins að stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, eins og við höfum talað fyrir í mörg ár, margir þingmenn, a.m.k. í Samfylkingunni út frá ýmsum sjónarmiðum. Ég held að þetta sé heppilegt skref í þá átt. Það má þá stíga stærri skref fljótlega ef þetta reynist ekki nægjanlegt að einhverra mati, en þess þarf alltaf að gæta að við erum um leið að skerða tekjur útvarpsins ef við takmörkum mínútufjölda þess á auglýsingamarkaði mjög verulega og þurfum þá að geta mætt því með einhverjum hætti.

Eftir svo ítarlegu vinnu sem staðið hefur yfir á nánast öllu þessu kjörtímabili bind ég vonir við að málið gangi til atkvæða Ríkisútvarpinu til framdráttar og hagsbóta.