141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann talaði um útstöðvarnar úti um landið sem voru lagðar niður á sínum tíma hjá RÚV. Nú er það spurning mín til hv. þingmanns hvort hann ætli sér, komist hann til valda hér og geti haft áhrif á efni frumvarpsins sem við ræðum, að hafa áhrif á að þær útstöðvar, t.d. á Suðurlandi, verði brúkaðar aftur, þ.e. að þeim verði komið upp aftur. Við þekkjum forsöguna. Við þekkjum hvernig var staðið að því á sínum tíma og vitum að okkar ágæti fréttamaður sem starfaði á Suðurlandi starfar nú hjá einkarekinni fréttastofu og sinnir starfi sínu með ágætri prýði. Hver er stefna hv. þingmanns? Mun hann taka þær upp aftur?