141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, eins og það er kallað.

Ég ætla fyrst að byrja að tala um markaða tekjustofna. Nú er það þannig að allir skulu greiða ákveðið nefgjald, um 19 þús. kr., þó ekki þeir sem eru með mjög lágar tekjur. Ég lagði til á sínum tíma, herra forseti, að þetta yrði gert þannig að persónuafslátturinn yrði lækkaður sem þessu næmi, það kæmi eins út og mundi gera allt kerfið miklu einfaldara.

Það sem menn gerðu líka á sínum tíma var að láta hlutafélög borga útvarpsgjald þó að hlutafélög hlusti að mínu mati ekkert voðalega mikið á útvarp eða horfi á sjónvarp, þau eru bara rammi utan um starfsemi og horfa eiginlega ekki á neitt. Það getur verið að starfsmennirnir horfi á sjónvarp, þeir eru þá búnir að borga fyrir áhorfið heima hjá sér. Það getur verið að kúnnarnir horfi á það líka, en þeir eru líka búnir að borga fyrir áhorfið heima hjá sér. Þannig að þetta er mjög undarlegt og er eiginlega tvískattlagning. Þetta hefur þó þann góða kost, svo ég fari dálítið út fyrir efnið, að þetta er ákveðinn kostnaður við að halda hlutafélögum á lífi. Hann getur hlaðist upp ef engin starfsemi er og síðan afskrifa menn þetta einhvern tímann og hlutafélagið fer í þrot. Það er reyndar eitt af því sem við erum í vandræðum með, af því að það kostar að setja hlutafélag í þrot, 250 þús. kr.

Þetta eru markaðar tekjur. Það er sífellt meiri ásókn í það að hafa markaðar tekjur og fela ríkissjóði og innheimtumönnum hans að innheimta alls konar gjöld fyrir hitt og þetta. Við þekktum náttúrlega iðnaðarmálagjaldið og við þekkjum búvörugjaldið sem enn er við lýði o.s.frv., þar sem menn nota þetta kerfi, nota hina sterku skattheimtu ríkisins til að innheimta alls konar gjöld. Þetta er gert með Ríkisútvarpið, þar er skattheimta ríkisins sett á fullt við að innheimta af öllum landslýð nefskatt til Ríkisútvarpsins. Nefskatturinn er náttúrlega mjög ófélagslegur skattur, því að fólk með lágar tekjur getur munað mjög mikið um að borga 19 þús. kr., herra forseti, á meðan hátekjufólk munar ekkert um það. Þess vegna er þetta mjög ófélagslegur skattur, sérstaklega af því að margir horfa ekkert á RÚV. Ég horfi óskaplega lítið á það, herra forseti, ég verð að viðurkenna það. Ég kem inn á það á eftir hvað ég horfi á.

Aðrir fjölmiðlar sem keppa við Ríkisútvarpið eru náttúrlega í glataðri stöðu að keppa við þennan risa sem fær 3 milljarða á fjárlögum og getur hegðað sér nánast eins og hann vill. Hann fær tekjur á silfurfati meðan aðrir þurfa að keppast við að fá þær, svo er Ríkisútvarpið auk þess á auglýsingamarkaði þar sem það rífur til sín bitana frá hinum sem þurfa að berjast. Ég skil bara ekkert í því hvernig litlar stöðvar halda sér gangandi yfirleitt í þessari samkeppni. Ég skil það ekki. Það er dálítið merkilegt að fólk sem talar um samkeppni í öðru orðinu skuli leyfa sér að búa til svona risa á þessum markaði sem á að byggja á samkeppni en gerir það að sjálfsögðu ekki.

Talandi um auglýsingarmarkaðinn, þar er Ríkisútvarpið mjög stórt. Hugmyndir hafa verið uppi um að taka það út af þeim markaði en það hefur ekki gerst. Ég horfi sjaldan á fréttirnar en ég rak augun í það um daginn í fréttunum á RÚV að þar var verið að kynna íslenska kvikmynd, XL. Hún fór mikinn í fréttunum. Í fréttunum kom fram: „Það er stutt í skíthælinn hjá mér“, segir Ólafur Darri Ólafsson, sem leikur áfengissjúkan þingmann sem er skikkaður í meðferð í kvikmyndinni. Svo kom fram að myndin byggði á sannsögulegum atburðum. Þetta var í fréttum Ríkisútvarpsins. Reyndar er búið að taka út þetta með sannsögulegu atburðina þegar maður fær fréttina útskrifaða, það er búið að milda orðalagið. En ég tók þetta dálítið til mín, herra forseti, af því að það vill svo til að ég var og er þingmaður. Mér fannst þetta ekki sérstaklega fallegt, sérstaklega af því að það var sagt að þetta væri sannsögulegt og ég fell í þann hóp sem vísað er til sem þingmaður, þó að það sé nú dálítið langt í það að ég sé haldinn áfengissýki.

Þessi mynd var í raun auglýst óskaplega mikið í fréttum Ríkisútvarpsins, ítarlega var fjallað um hana í fréttunum og síðan í Kastljósi á eftir og mikið rætt um hana. Ég fór að velta fyrir mér: Þetta er mjög verðmæt auglýsing, upp á margar milljónir eða milljónatugi miðað við auglýsingaverð annars staðar. Auk þess var rætt um myndina í fréttum þar sem umfjöllunin kemur inn á gafl til fólks og því er ekki sagt að þetta sé auglýsing, þannig að fólk getur ekki farið í varnarstöðu eins og gagnvart auglýsingum.

Ég fór að velta fyrir mér: Hversu mikils virði er svona auglýsing fyrir nýja íslenska kvikmynd? Fá aðrar íslenskar kvikmyndir sambærilega auglýsingu? Hvernig stendur auglýsingin á þessari kvikmynd gagnvart t.d. erlendum kvikmyndum? Það á víst að vera jafnræði milli innlendra og erlendra aðila. Spurningin er þessi: Hvers virði er svona auglýsing? Var hún einhvern veginn borguð? Fékk Ríkisútvarpið greitt? Fékk einhver starfsmaður greitt, eða hvernig var þetta allt saman? Þessi mikla umfjöllun um kvikmyndina vakti hjá mér fullt af spurningum.

Ég ætla ekki að fara meira út í þetta en það er afskaplega erfitt að berjast við Ríkisútvarpið í samkeppni. Það eru nokkrar litlar stöðvar eins og ÍNN og Útvarp Saga og fleiri stöðvar sem berjast í bökkum og reyna að berjast við þennan risa, en gengur náttúrlega hægt og illa. Ég sé eiginlega ekki hvernig þær fara að.

Í gamla daga þegar maður las Þjóðviljann eða Tímann eða Morgunblaðið eða önnur flokksblöð, las maður þau með réttum gleraugum. Hið sama gildir um RÚV, ég nota sömu gleraugun á RÚV. Hér var mikið talað um eignarhald á fjölmiðlum og menn vildu endilega vita hver ætti t.d. Stöð 2. Það var mikil og löng umræða hér á þingi, sennilega lengsta umræðan, um fjölmiðlalögin gömlu sem forseti felldi síðan úr gildi og Alþingi dró til baka. Þar gekk umræðan um eignarhald. Nú vill svo til að sá fjölmiðill sem við erum að ræða í dag, RÚV, er í eigu eins aðila. Það er ríkissjóður. Og hver skyldi fara með ríkissjóð? Það er ríkisstjórnin hæstvirt ásamt með meiri hlutanum á Alþingi.

Af hverju skyldu menn hafa áhyggjur af eignarhaldi á fjölmiðlum? Af hverju skyldi þetta mál hafa yfirleitt komið upp þarna um árið? Af hverju skyldum við enn vera að tala um eignarhald á fjölmiðlum? Vegna þess að menn óttast að eigandinn geti haft áhrif á eignina sína, á fjölmiðilinn. Menn telja sig vita að fjölmiðlar séu óskaplega valdamiklir og geti búið til fréttir og annað, búið til atburðarás og geti t.d. sett ríkisstjórn í gott ljós eða slæmt.

Þarna kem ég einmitt að punktinum varðandi eignarhaldið. Eins og allir aðrir vita fréttamenn og starfsmenn RÚV nokkurn veginn hver borgar saltið í grautinn hjá þeim. Ef fjármálaráðherra er í góðu skapi getur hann aukið fjárveitingar eða minnkað þær. Það er reyndar búið að taka á því í þessu frumvarpi, en það vill svo til að meiri hlutinn á Alþingi breytir hugsanlega frumvarpinu. Þannig að þótt menn reyni að mynda stjórn með þeim hætti sem tiltekinn er í frumvarpinu, með valnefnd o.s.frv., getur stjórnarmeirihlutinn eftir sem áður alltaf breytt frumvarpi um Ríkisútvarpið og það er ríkisstjórnin sem hefur um það að segja.

Eignarhaldið er nefnilega hættulegt, það er einn aðili með hlutafélagið. Það er reyndar menntamálaráðherra í þessu frumvarpi en var áður fjármálaráðherra. Eigandinn hefur heilmikið um málið að segja.

Þess vegna, þegar ég hlusta á RÚV, set ég upp sömu gleraugun og í gamla daga þegar ég las Moggann og vissi að Sjálfstæðisflokkurinn stýrði honum, eða þegar ég las Tímann og vissi að Framsóknarflokkurinn stýrði honum. Ég set upp nákvæmlega sömu gleraugun. Ég veit að það er ríkisstjórnin sem stýrir Ríkisútvarpinu. Enda stendur alveg greinilega að RÚV er í eigu íslenska ríkisins, sem er kennitala, einn aðili, og það má ekki einu sinni selja það.

Það sem gleður mig, herra forseti, er sú samkeppni sem er komin utan úr heimi. Það vill svo til að ég horfi töluvert á sjónvarp þegar mér hentar, en það er ekki íslenska sjónvarpið. Ég horfi á þýska sjónvarpið og fylgist með fréttum og fæ allt aðra mynd af heiminum, það er svo merkilegt. Ég fæ einhvern veginn aðra mynd af heiminum, dálítið utan frá. Það er mér mjög verðmætt að hafa aðra mynd af heiminum en þá sem Ríkisútvarpið og innlendir fjölmiðlar gefa mér.

Svo gerist nokkuð merkilegt, herra forseti. Ég horfi líka á kínverska ríkissjónvarpið. Af hverju skyldi ég gera það? Það gefur mér eiginlega mestu upplýsingarnar. Ég veit að kínverska ríkissjónvarpið er nákvæmlega eins og Tíminn í gamla daga sem var háður Framsóknarflokknum. Kínverska ríkissjónvarpið er algjörlega háð ríkisstjórn Kína. En þegar horft er á kínverska ríkissjónvarpið skynjar maður geysilegar breytingar innan Kína, þó að það komi þessu máli kannski ekki endilega við. Það er verið að tala um vandræði og fjárhagsvandræði fólks, og um félagsleg vandamál í Kína. Það hefði verið óhugsandi fyrir tíu árum eða svo. Það er líka farið að tala um mengun, herra forseti, í kínverska ríkissjónvarpinu. Það segir mér helling. Það segir mér heilmikið um að það eru að verða miklar breytingar í Kína og stjórnvöld eru greinilega farin að horfa á félagslegu vandamálin sem þar eru til staðar en voru áður bara þöguð í hel. Þetta fréttum við náttúrlega ekkert hér á Íslandi, vitum lítið af þessu. Kannski er ég að segja einhverjum heilmiklar fréttir.

Þessi samkeppni gerir það að verkum að ég hef ekkert voðalega miklar áhyggjur af RÚV þó að eigandinn sé einn og hann stýri því að ég tel með sínum hætti. Svo kemur alltaf ný ríkisstjórn og kannski verður Sjálfstæðisflokkurinn í næstu ríkisstjórn. Þá munu stjórnarandstöðuþingmennirnir allt í einu uppgötva að kannski sé betra að Ríkisútvarpið sé ekki svona geysilega öflugt og óvægið í samkeppninni. En það gerist síðar og þá er það orðið of seint því það er hugsanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji bara beita því eins og aðrir í sína þágu.

Þetta byggir á því að þarna er einn eigandi og hann fer með allt valdið.

Svo les ég hérna setningu í nefndaráliti meiri hlutans sem er alveg ótrúleg, miðað við það að nú er 21. öldin. Þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um viðskiptaboð. Í ákvæðinu er mælt fyrir um skilvirkar og gagnsæjar reglur svo draga megi úr umsvifum Ríkisútvarpsins á markaðnum enda er eitt af markmiðum frumvarpsins að draga úr vægi viðskiptalegra sjónarmiða í starfsemi þess og stuðla að eðlilegu samkeppnisumhverfi á fjölmiðlamarkaði.“

Það á sem sagt að draga úr viðskiptalegum sjónarmiðum. Þetta les maður á 21. öldinni. Það er ekkert verið að hugsa um viðskiptaleg sjónarmið heldur eitthvað annað, ég veit ekki hvað, kannski listrænt eða eitthvað svoleiðis. Þetta les maður hér.

Svo les ég eitt líka sem byggir á ákveðnum misskilningi. Í nefndaráliti meiri hlutans sem við erum að ræða er fjallað um stjórn Ríkisútvarpsins á síðu 5, með leyfi herra forseta:

„Fjallað er um stjórn Ríkisútvarpsins í 9. gr. frumvarpsins. Fram kemur í 1. mgr. að stjórn Ríkisútvarpsins skuli skipuð sjö mönnum og jafnmörgum til vara. Það er álit meiri hlutans að jafnréttissjónarmið skuli gilda um Ríkisútvarpið eins og um aðrar stofnanir í eigu ríkisins.“

Já, en þetta er hlutafélag. Þetta er opinbert hlutafélag. Það merkilega er, herra forseti, að í lögum um hlutafélög nr. 2/1995, stendur í 2. mgr. 63. gr. að í opinberum hlutafélögum, eins og á við um Ríkisútvarpið, skuli gæta jafnræðis milli karla og kvenna. Þetta er þegar í lögum um opinber hlutafélög.

Þarna hefur meiri hlutinn ekki þekkt lögin um opinber hlutafélög. Í lögunum stendur reyndar að þetta skuli gilda um opinber hlutafélög sem eru með 50 starfsmenn eða fleiri. Ríkisútvarpið er með 50 starfsmenn eða fleiri.

Svo er það stjórnarkjörið. Það er mjög skrýtið, herra forseti. Nú stendur í hlutafélagalögum að aðalfundur skuli kjósa stjórn en í þessu fyrirtæki, þessu opinbera hlutafélagi sem fellur undir hlutafélagalög, stendur að áður en stjórn er kjörin eða kosin á aðalfundi skuli hún tilnefnd til tveggja ára. Það er búið að kjósa hana. Það er búið að tilnefna hana áður en hún er kosin. Til hvers er kosningin þá? Hvernig gilda reglur hlutafélagalaga um kosningu í stjórn þegar búið er að tilnefna hana áður?

Ráðherra tilnefnir einn mann, hann á sem sagt formanninn. Það er ágætt, það undirstrikar bara að það er einn eigandi sem á þetta og á að stjórna fyrirtækinu. Starfsmennirnir vita náttúrlega að það er eins gott að hafa formanninn góðan í stjórninni.

Síðan tilnefna starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins einn mann, annan til vara. Þá kemur sú merkilega slaufa að starfsmaðurinn er yfir útvarpsstjóra og útvarpsstjóri er yfir starfsmanninum. Það þykir aldrei gott. En allt í lagi, þarna er búin til slaufa sem brýtur öll skipurit. Hvað gerist ef útvarpsstjóra sinnast við starfsmanninn eða starfsmaðurinn sem er í stjórn útvarpsins er hættur að mæta? Hvað gerist þá? Getur útvarpsstjóri sagt honum upp eða hvað? Ég er hræddur um ekki.

Síðan er kosin valnefnd til tveggja ára í senn. Nú á sem sagt að gera þetta algjörlega laust við alla pólitík. Það vill nú svo til að allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis tilnefnir þrjá fulltrúa, og jafnmarga til vara. Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einn þar. Það held ég að sé nokkuð öruggt, flokkurinn er svo stór. Bandalag íslenskra listamanna tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara. Samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir einn fulltrúa. Síðan á þessi valnefnd að kjósa fimm fulltrúa í stjórn af þessum sjö. Þetta er náttúrlega bara yndislegt, herra forseti. Það er búið að taka út alla pólitík nema að því leyti að þarna eru stjórnmálamenn, þ.e. fulltrúar úr allsherjar- og menntamálanefnd, allt í einu farnir að hafa eitthvað að segja og hafa kannski heilmikla skoðun á því hvers lags stefnu Ríkisútvarpið á að framfylgja. Vandinn er náttúrlega að þetta er félag í eigu eins aðila. Það er einmitt vandinn.

Þá held ég að ég sé búinn að fara í gegnum þetta mest allt enda er tíminn að renna út. Ég hef lagt til að Ríkisútvarpið verði einkavætt og selt og það þurfi bara að standa sig í samkeppninni eins og aðrir. Það fái kannski útvarpsgjaldið í eitt eða tvö ár meðan það er að aðlagast breyttum aðstæðum og til að standa í samkeppninni á markaði, en ég held að markaðurinn verði miklu líflegri eftir.

Ég hef reyndar lagt til að skipað verði útvarpsráð sem hafi peningana til að deila út og bjóði út verkefni eins og fréttatíma, öryggismálin, að sent skuli út á öllum tímum sólarhringsins o.s.frv. Slík verkefni verði boðin út. Það er alveg hægt að gera það. Þá held ég að verði heldur betur fjör hjá öllum litlum leikfélögunum og öðrum og fréttahaukum sem vilja standa sig í samkeppninni um að koma með góðar fréttir. Það mætti jafnvel mæla fréttirnar eftir því hversu áhorfið er gott. Það er hægt að hafa tvo menn sem skiptast á um að flytja fréttir og eftir eitt ár eða tvö heldur sá aðili sem hefur meira áhorf sínum hlut en hinn hlutinn er boðinn út, sá sem er á móti hinum og keppir við hann, ráðinn annar nýr.

Þetta er nefnilega bara markaður. Þetta er mjög harður markaður, vegna þess að menn eru farnir í stórum stíl að sinna allt öðrum fréttamiðlum, eins og t.d. netinu. Ég lít til dæmis á Facebook sem fréttamiðilinn minn. Ég er á Facebook og nota það ítarlega til að koma sjónarmiðum mínum á framfæri. Þarna hefur orðið heilmikil breyting og komin heilmikil samkeppni. Kannski dagar þessi risi upp eins og hvert annað nátttröll.