141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

skuldavandi vegna verðtryggðra lána.

[15:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru þrjár tillögur í frumvarpi á þskj. 115 í máli 115 þar sem fyrsti flutningsmaður er Magnús M. Norðdahl. Ég er heldur enginn sérfræðingur á þessu sviði og er því að leita eftir því hvort hæstv. ráðherra sé að vinna að einhverjum slíkum málum. Ég held að 600–700 húseignir á Suðurnesjum hafi nú komist í eigu Íbúðalánasjóðs og stefnir í að verði mun fleiri fyrir utan húseignir sem aðrar fjármálastofnanir eiga. Ástandið er grafalvarlegt og það er þungt andrúmsloft á fundum um þau efni á svæðum þar sem slíkt ástand er og alvaran gríðarleg.

Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Kemur til greina að ráðherrann skoði þetta?

Önnur ábending sem kom fram var hvort það væri hægt að skoða eitthvað í verklagsreglum sýslumanna gagnvart aðfararlögum, hvort það hefði verið til skoðunar (Forseti hringir.) til að milda þessar aðgerðir eins og hægt væri og þá í ljósi þess að hugsanlega verður verðtryggingin dæmd ólögmæt og hugsanlega finna menn hér einhverjar sameiginlegar leiðir til að koma til móts við þessi heimili. Þá er vont að menn séu búnir að ganga of langt, (Forseti hringir.) ef hægt er að fara aðrar leiðir.