141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

framhald aðildarviðræðna við ESB.

[15:21]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ekki stórbrotið, finnst mér, að rótast í því og draga fram ágreining milli manna í öðrum flokkum. Ég man ekki til þess að við höfum til dæmis sérstaklega farið í svona lotur eftir landsfund Framsóknarflokksins eða — (SIJ: Þar eru allir sammála.) Allir sammála, já? Það eru allir jafnvitlausir. Ég sé ekki heldur að menn fari sérstaklega í Sjálfstæðisflokkinn með sama hætti núna. Flokkar halda sína fundi, (Gripið fram í.) ganga þar frá sínum áherslum og ég man ekki til þess að það hafi verið til siðs að taka svo upp einstaka þingmenn eða ráðherra og yfirheyra þá út frá því.

Ályktanir landsfunda eru ályktanir landsfunda og þar er stefnan mótuð. Ég get hins vegar upplýst það, af því að það snýr að mér sjálfum, að ég greiddi atkvæði með sama hætti og núverandi formaður flokksins í þessari atkvæðagreiðslu á fundinum og varð sem sagt undir. Ég studdi þá tillögu sem fékk aðeins minna fylgi, en ég virði að sjálfsögðu og vinn samkvæmt niðurstöðu landsfundarins. Ég hygg reyndar að minni munur sé á þessu tvennu en menn hafa blásið út í umræðunni.

Andstaðan við aðild að Evrópusambandinu er áréttuð og um það er full samstaða í okkar röðum. Það er stefna flokksins þó að einstöku menn hafi eins og gengur mismunandi skoðanir í því. Síðan er í þeirri tillögu sem var samþykkt alveg ljóst að þessu ferli eru sett mjög skýr mörk, t.d. að innan árs verði komin niðurstaða og/eða þá að leitað verði til þjóðarinnar (Gripið fram í.) þannig að því er líka settur rammi. Það er misskilningur að lesa það í þessa ályktun að þetta þýði að eitthvert sambærilegt ferli og verið hefur í gangi undangengin fjögur verði það endilega með okkar samþykki næstu fjögur ár.