141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

verðmætasköpun í landinu.

[15:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra deilir því sjónarmiði með mér að það sé gott að auka hér verðmætasköpun. Ég var farin að hafa áhyggjur af því hvert Vinstri hreyfingin – grænt framboð stefndi. Ég vonast til að núverandi nýkjörin forusta deili þessari skoðun með hæstv. ráðherra.

Mig langar jafnframt að spyrja ráðherrann, vegna þess að hann svaraði ekki spurningu minni um launahækkanirnar sem fulltrúi Vinstri grænna taldi að rétt væri að ráðast í fyrir viku í sama þætti sem ég vísa hér til: Stendur þá núna fyrir dyrum að fara í að hækka laun allra opinberra starfsmanna?