141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

verðmætasköpun í landinu.

[15:30]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Að sjálfsögðu viljum við öll að við getum bætt hér lífskjörin. Það er mjög mikilvægt mál og það var grunntónninn á okkar landsþingi. Við þurfum að sjálfsögðu markvisst að reyna að bæta kjörin, sérstaklega hjá tekjulægri hópunum. Við þurfum að útrýma kynbundnum launamun og við þurfum að gera betur, sérstaklega við fjölmennar kvennastéttir í umönnunargeiranum og víðar. Það á að vera forgangsmálefni.

Vandinn er hins vegar sá að á sama tíma og margar útflutnings- og samkeppnisgreinarnar mundu óumdeilanlega ráða jafnvel við hærri laun en þær greiða í dag er innlendi geirinn og auðvitað hið opinbera í þröngri stöðu. Við þekkjum afkomu ríkis og sveitarfélaga, skuldirnar sem hlóðust á þessa aðila eftir hrunið og þá erfiðu glímu sem bæði ríkið og sveitarfélögin hafa staðið í við að reyna að ná endum saman á nýjan leik og koma sér í sjálfbæran rekstur.

Það er sem betur fer að takast, a.m.k. hjá ríkinu og mörgum sveitarfélaganna þó að önnur eigi dálítið í land, sérstaklega hvað skuldahliðina varðar. Þau eru skuldsett langt yfir þau viðmiðunarmörk (Forseti hringir.) sem við höfum sett okkur, en batnandi staða að þessu leyti er ávísun á að nú verður hægt að fara að gera aðeins betur. En það þarf að vera ábyrgt og yfirvegað og loforð og yfirboð eru um það bil það síðasta (Forseti hringir.) sem við þyrftum á að halda. Það mættu ýmsir nýkomnir heim af landsfundi hafa í huga og þá á ég ekki við landsfund Vinstri grænna. [Hlátur í þingsal.]