141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

staða aðalvarðstjóra á Höfn.

534. mál
[15:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og þar með að vekja athygli á bágri stöðu löggæslunnar sem við erum að verða vitni að, ekki bara á Hornafirði, þó að þetta dæmi sé ágætt til að benda á það, heldur víðar. Það er algjörlega nauðsynlegt að hæstv. ríkisstjórn átti sig á því að hér þarf að forgangsraða fjármunum með öðrum hætti. Það er ótækt og sérstaklega á stöðum eins og Höfn í Hornafirði sem eiginlega má segja að sé hin eyjan í Suðurkjördæmi. Það er langt á milli staða og það verður að tryggja þar grunnþjónustuna, að hún sé á staðnum, og þar er löggæslan engin undantekning þannig að ég hvet hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórn til dáða í þessum efnum, að fara að forgangsraða betur fjármunum skattborgaranna.