141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

staða aðalvarðstjóra á Höfn.

534. mál
[15:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég held einmitt að að þessi fyrirspurn undirstriki þá miklu erfiðleika sem lögreglan almennt er í á landinu og ekki síst á landsbyggðinni. Ég er ásamt fleirum hér inni fulltrúi í nefnd á vegum innanríkisráðuneytisins sem er að fara yfir stöðu löggæslunnar í landinu og það eru vægast sagt sjokkerandi upplýsingar sem við fáum fram á þeim nefndarfundum. Við munum vonandi skila skýrslu til þingsins í lok vikunnar eða upphafi þeirrar næstu og þá óska ég eftir því, ekki síst í ljósi mikilvægis löggæslunnar og þess að við sameinumst um að styrkja lögregluna vítt og breitt um landið, óháð því í hvaða flokki við erum, að hún fái svigrúm og pláss í dagskrá þingsins því að málið sem varðar stöðu lögreglunnar er hrópandi, ekki síst á landsbyggðinni. Við verðum að taka á þessu og ég vonast til þess að við náum þannig þverpólitískri samstöðu.