141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

staða aðalvarðstjóra á Höfn.

534. mál
[15:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að það er alveg gríðarlega mikilvægt að líta núna til lögreglumála. Það er mest vöntun á landsbyggðinni og á næsta kjörtímabili verður forgangsatriði númer eitt að vera að styrkja sérstaklega landsbyggðina. Þetta segi ég þó að ég sé þingmaður á höfuðborgarsvæðinu, landsbyggðin er númer eitt og höfuðborgarsvæðið númer tvö í þessu sambandi.

Ég er einnig í þeirri nefnd sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir minntist á. Núna er verið að vinna eftir þingsályktun um gerð löggæsluáætlunar sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson var flutningsmaður að. Það er mjög mikilvægt, af því að við erum nú á lokasprettinum að klára þá skýrslu sem við munum leggja til hæstv. ráðherra, að þingið nái að ræða hana áður en þessu kjörtímabili er lokið þannig að það sé alveg ljóst hvað stjórnmálaflokkarnir leggja sameiginlega áherslu á í löggæslumálum á næstu árum.