141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

staða aðalvarðstjóra á Höfn.

534. mál
[15:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta mál snýst ekki um að færri lögreglumenn komi til með að ganga vaktir. (UBK: Það er núna …) Þetta snýst um það eitt hvort aðalvarðstjóri skuli verða varðstjóri í nýrri stöðu sem verður auglýst. Þetta snýst bara um það, þetta snýst ekki um að skerða þjónustuna við íbúana á svæðinu á nokkurn hátt. Þetta snýst einvörðungu um það hvort aðalvarðstjórastaðan verði að varðstjórastöðu, ekki neitt annað. Þessi tillaga sýslumannsins á Eskifirði er komin til vegna þess að við höfum skorið niður við lögregluna. Samkvæmt skýrslu sem við höfum gert opinbera á vegum innanríkisráðuneytisins er niðurskurðurinn við lögregluna mjög mikill. Lögreglan hefur sætt niðurskurði eins og aðrar stofnanir sem heyra undir okkar ráðuneyti upp á 20–25% að raungildi frá 2009. Það eru um 2,8 milljarðar á ári. Það eru verulegar upphæðir. Og þá er spurningin þessi: Hvernig viljum við taka á þessu?

Við ræddum þetta við gerð síðustu fjárlaga. Sjálfstæðisflokkurinn sagði þá að hann vildi ekki auka útgjöld ríkisins. Það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn sagði. Og ég hlakka til að taka þessa umræðu, ekki síst við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þegar við ræðum þá forgangsröðun hvar Sjálfstæðisflokkurinn vill skera niður. Ég er á þeirri skoðun, og minn flokkur mjög afdráttarlaust, að við eigum að auka framlög til löggæslunnar og reyna að vinda ofan af þeim niðurskurði sem hefur orðið á undanliðnum árum. Ég hlakka til (Gripið fram í.) að ræða við Sjálfstæðisflokkinn um nákvæmlega þetta efni. Það gengur ekki lengur að segja eitt um fjárlögin, að það eigi ekki að auka útgjöld í fjárlögum, (Gripið fram í.) það eigi að skera niður þvert á móti, og koma síðan á nánast öllum sviðum, hvort sem er í heilbrigðisþjónustunni, löggæslunni eða annars staðar, (Forseti hringir.) og segja: Hér eru brotalamir sem þarf að laga.

Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér í málflutningi sínum. Það er Sjálfstæðisflokkurinn ekki.