141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

mál á dagskrá.

[15:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur að ég sé að reyna að taka mér í hendur dagskrárvald enda veit ég að hæstv. núverandi forseti þingsins mundi aldrei láta það henda að framkvæmdarvaldið gerði slíkt. Ég er heldur ekki að krefjast þess að eitt mál eða annað verði tekið út af dagskrá. Ég er einfaldlega að segja að ef málið á að fara á dagskrá er eðlilegt að það mál sem þetta tiltekna þingmál vísar til og liggur í allsherjarnefnd komi jafnframt til umræðu. Í þessari þingsályktunartillögu er framkvæmdarvaldið hvatt til að vinna tiltekna vinnu og smíða frumvarp á grundvelli hennar. Það frumvarp liggur núna fyrir, hefur verið flutt á Alþingi og liggur í allsherjarnefnd. Allsherjarnefnd heykist hins vegar á því, og ég endurtek það orðalag, að afgreiða það út úr nefndinni en ætlar að reyna að þröngva þessu niður. Þetta er mjög stórt mál. (Gripið fram í.) Það er mjög stórt mál (Forseti hringir.) hvort við eigum að setja á fót leyniþjónustu á Íslandi (Gripið fram í.) að hætti þeirrar leyniþjónustu sem við höfum á Norðurlöndum. Ég vek athygli á því að þegar ég hef reynt að efna til umræðu um það nákvæmlega hvað það er sem vakir fyrir 1. flutningsmanni og öðrum flutningsmönnum (Gripið fram í.) hef ég aldrei fengið nein svör. (Forseti hringir.) Þá hefur alltaf verið vísað í einhverja vinnu í innanríkisráðuneytinu. Hún liggur núna fyrir, hefur birst í frumvarpsformi og allsherjarnefnd neitar að afgreiða hana út. Ég er að segja að ef við ætlum að taka þetta til umræðu (Forseti hringir.) skulum við taka allan pakkann. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)