141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

mál á dagskrá.

[15:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að hér eru mjög undarlegir hlutir að gerast. Hér kemur hæstv. innanríkisráðherra sem er að öllu jöfnu talsmaður lýðræðisástarinnar, talsmaður þess að Alþingi eigi að vera sjálfstætt, talsmaður þess að við eigum að virða lýðræðislegar niðurstöður.

Núna segir hann: Meiri hluti nefndarinnar heykist á einhverju máli. Já, það er nefnilega það. Meirihlutavilji nefndarinnar er ekki sá sami og ráðherrans og þá má ekki ræða hér mál.

Hv. formaður þingflokks Vinstri grænna segir: Það er svo stuttur fyrirvari og fólk var fjarverandi. Ég hef séð þá sem eru á nefndarálitinu í þinghúsinu í dag. Ég sé að hæstv. innanríkisráðherra er hér og ef hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ætlar að nota það sem afsökun að ekki sé hægt að ræða mál með dags fyrirvara ætti hún aðeins (Forseti hringir.) að skoða vinnubrögð þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ég veit ekki betur en að það eigi að leggja fram í dag hvorki meira né minna en endurskoðun almannatrygginga og það á að ræða það mál á morgun með minna en sólarhrings fyrirvara. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)