141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

umræða um 2. dagskrármál.

[16:27]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þá tel ég algjörlega einboðið að spyrja — fyrst hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gengur hér fram fyrir skjöldu til að verja væntanlega hæstv. innanríkisráðherra, Ögmund Jónasson, sem fór að tala um allt annað mál áðan og pota í allsherjar- og menntamálanefnd, hún væri að heykjast á málinu og ætti þess vegna ekki að afgreiða það og fara í umræðu um forvirkar rannsóknarheimildir, sem sú er hér stendur er 1. flutningsmaður að og hef fylgst með frá upphafi. Þetta er ekki nýtt mál og löngu orðið tímabært að taka það til umræðu aftur og klára það.

Því ætla ég að spyrja og fá svör við því, fyrst hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gengur hér fram og segir: Það var ég, það var ég sem bað um frestun á þessu máli og að það yrði tekið af dagskrá. Því spyr ég: Af hverju í ósköpunum? Er það þannig að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir stjórni Alþingi Íslendinga? Hvert erum við komin með Alþingi Íslendinga? Ég tel að þingflokksformenn verði að fara yfir málið og komi sér saman um dagskrá þingsins, af því að ekki er hægt að vinna þetta svona eins og hér er gert.