141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hér upp og eiga þessa samræðu við mig. En það kemur líka fram í áliti fjárlagaskrifstofunnar að hún telur það, þetta er á bls. 46, misskilning á fjárstjórnarvaldi Alþingis og hlutverki fjárlaga sem komi fram í greinargerð frumvarpsins að með mörkun útvarpsskattsins til RÚV verði þetta félag í eigu ríkisins sjálfstætt eða óháð hinu pólitíska og efnahagslega valdi stjórnvalda, eins og reifað er svo áfram í umsögninni og hv. þingmaður kannast við. Er ekki einfaldlega rangt að nálgast málið með þessum hætti og rétt að leiðrétta það hér í þinginu áður en lengra er haldið?

Síðan langar mig, fyrst hv. þingmaður kom hér í andsvar við mig, að spyrja hvort hann geti gefið mér einhverja skýringu á því hvers vegna allsherjar- og menntamálanefnd er falið það vald að skipa þrjá stjórnarmenn, eins og ég fór yfir í ræðu minni, og mér finnst afskaplega sérkennileg breyting á því hvernig við skipum í stjórnir opinberra hlutafélaga.