141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma hingað upp og svara þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Birgir Ármannsson varpaði fram í ágætri og málefnalegri ræðu sinni. Hún lýtur í raun og veru að tilganginum með þessu frumvarpi og ekki síst því sem lýtur að því að afmarka betur almannaþjónustuhlutverkið, eins og nefnt er í nefndarálitinu.

Það er rétt að annað af meginmarkmiðum frumvarpsins er að afmarka betur og greina að þessi tvö hlutverk, annars vegar almannaþjónustuhlutverkið og hins vegar það sem við getum flokkað undir samkeppnisrekstur. Hvort tveggja er gert með því að útlista í býsna nákvæmu máli í 3. gr. hvað fellur undir almannaþjónustuhlutverk. Það er vissulega víðtækt. Það má taka undir að það er býsna breitt svið rétt eins og í gildandi lögum. Ég vek athygli á því að heimild Ríkisútvarpsins að fara býsna vítt og breitt í starfsemi sinni er mjög almenn og opin.

Í 4. gr. er síðan sá áskilnaður sem á rætur í athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA um að takmarka þurfi miklu betur samkeppnisreksturinn og ramma hann inn í ljósi reglna Evrópusambandsins um ríkisaðstoð. Í greinargerð með frumvarpinu er einmitt áskilið hvaða starfsemi Ríkisútvarpsins eigi heima í dótturfélögum. Ég tel eðlilegt, með leyfi forseta, að fara hér nokkrum orðum um það. Þar er talið upp:

Sala auglýsinga og kostunarrýmis í dagskrá móðurfélagsins.

Sala á dagskrárefni og sýningarrétti á eigin framleiðslu.

Samframleiðsla á efni með erlendum sjónvarpsstöðvum og fyrirtækjum.

Sala á dagskrárefni til almennings.

Leiga á aðstöðu, tækjum og búnaði.

Sala á þjónustu og hlutum sem tengjast dagskrárefni.

Það er því skýrt í frumvarpinu hvaða þættir það eru í núverandi starfsemi Ríkisútvarpsins sem eiga erindi og heima í dótturfélagarekstri í framtíðinni.