141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt að í 3. gr. er listað upp í talsvert löngu máli hvað fellur undir almannaþjónustuhlutverkið og má segja að það sé eiginlega öll hefðbundin fjölmiðlastarfsemi. Ef við notum síðan skilgreininguna á því hvað fellur undir dótturfélög, miðað við greinargerðina, þá er það hliðarstarfsemi, ekki fjölmiðlarekstur, þ.e. ekki kjarnastarfsemi heldur afleidd starfsemi eða tengd starfsemi. Matið er eiginlega þannig að allt sem lýtur að fjölmiðlastarfsemi sé fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu, eða er það rangt skilið hjá mér? Er það ekki nokkuð ljóst að allt í fjölmiðlastarfsemi, hinni eiginlegu fjölmiðlastarfsemi, sjónvarpi, útvarpi og eftir atvikum vef Ríkisútvarpsins, sem felur í sér að koma einhvers konar boðum á framfæri við neytendur, þ.e. hlustendur eða áhorfendur, falli undir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, að ekkert breytist í því? Stoðdeildir eða hliðardeildir eru settar utan við fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Það er reyndar umræða út af fyrir sig hvort eðlilegt sé að líta svo á að tekjuöflunarbatterí svona stofnunar eigi að vera rekið í dótturfélagi. Hvernig er síðan með auglýsingasöluna? Það er skipulagsatriði. Það er alla vega dálítið sérstakt að tekjupósturinn skuli allur vera settur í eina sérdeild. (Forseti hringir.)

Eftir því sem ég les þetta er allt sem lýtur að fjölmiðlun flokkað sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu, en stoðdeildirnar og hliðarstarfsemi, (Forseti hringir.) þ.e. afleidd starfsemi, getur átt heima í dótturfélögum.