141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að margt mjög gott má segja um Ríkisútvarpið, en það breytir ekki því að það geta verið gallar á þessu frumvarpi.

Ég er enn þeirrar skoðunar að eðlilegra hefði verið að setja Ríkisútvarpinu þrengri skorður miðað við þetta, skilgreina almannaþjónustuhlutverkið þrengra, skýra það nánar, vegna þess að við erum með ríkisútvarp í einhverjum tilgangi, ekki bara út af því að okkur langi til að reka öflugan fjölmiðil heldur í sérstökum tilgangi. Hver er sá tilgangur? Jú, Ríkisútvarpið hefur öryggishlutverk. Það hefur hlutverk sem fréttamiðill í lýðræðisþjóðfélagi. Það hefur fræðsluhlutverk og menningarhlutverk. Þetta er í mínum hluta réttlæting fyrir því að hafa ríkisútvarp. En um leið spyr ég: Af hverju þarf Ríkisútvarpið að fást við hluti sem einkaaðilar geta vel séð um? Ég velti því fyrir mér og ég velti fyrir mér hvort ríkisvaldið eigi í litlu samfélagi, litlu málsvæði, þar sem möguleikar annarra aðila til að reka starfsemi af þessu tagi eru vissulega takmarkaðir, hreinlega bara af náttúrulegum ástæðum, vegna mannfæðar og annað, að halda uppi samkeppni á jafnmörgum sviðum og það gerir í gegnum Ríkisútvarpið þegar það á í harðri samkeppni á afþreyingarmarkaðnum, bæði í útvarpi og sjónvarpi, svo að það sé tekið sem dæmi. Ég velti því fyrir mér. Mér finnst það ekki sjálfgefið, jafnvel þótt ég virði menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins, hlutverk þess sem fréttamiðils og sem vettvangs fyrir lýðræðislega umræðu, þá velti ég því mikið fyrir mér hvað ríkið er að gera sem stór keppandi á markaðnum fyrir afþreyingarefni.

Ég veit, eins og hv. þingmaður sagði, að það er ekki ætlunin með þessu frumvarpi að takmarka starfsemina, en gallinn á frumvarpinu felst í því að almannaþjónustuhlutverkið er skilgreint svo vítt að (Forseti hringir.) það mun engu breyta um fyrirferð ríkisins á þessu sviði. Ríkisútvarpið er að gera góða hluti á mörgum sviðum, en sinnir líka alls (Forseti hringir.) konar starfsemi sem einkaaðilar gætu gert jafn vel eða betur.