141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:06]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að dagskrá Alþingis þessa dagana er mjög sérstök og furðulegt að við skulum hvorki vera að ræða það almennt hvernig við getum eflt atvinnulífið né hvernig við getum aðstoðað þau heimili sem eru í vanda stödd. Nei, þá tökum við að okkur ýmis verkefni sem núverandi meiri hluta þykja brýn eins og það frumvarp sem hér um ræðir, frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Þær munu örugglega ekki skipta fólkið í landinu neinu máli, þær breytingar sem við erum að gera á Ríkisútvarpinu, það mun ekki koma fólkinu í landinu til góða á nokkurn hátt.

Mig langar að ræða nokkrar greinar. Mig langar að byrja á 4. gr. sem tekur til annarrar starfsemi en þeirrar sem tilgreind er í 3. gr., sem er fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu. Við hugsum alltaf stórt, Íslendingar. Eins og kemur fram í greinargerð þá vísum við til þess að í Noregi og í Bretlandi eru dótturfélög sett utan um rekstur svipaðan og þann sem verið er að fjalla um í 4. gr. Við sem erum 320 þúsund ætlum að fela Ríkisútvarpinu að vera á markaði á sama hátt og milljónasamfélög í kringum okkur, í stað þess að gefa þeim einkareknu útvarps- og sjónvarpsstöðvum sem fyrir eru í landinu tækifæri til að blómstra á þeim vettvangi og að Ríkisútvarpið haldi sig við verksvið sitt, þ.e. að vera fjölmiðlaveita eða fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu. Í því hlutverki felst ekki að miðla almennri afþreyingu erlends dagskrárefnis, en 4. gr. tekur til dæmis aðeins til þess sem og auglýsinga og kostunar.

Talað er um og sérstaklega tekið fram að tryggja eigi ritstjórnarlegan aðskilnað á milli Ríkisútvarpsins og dótturfélags þess. Það er líka talað um að ekki eigi að verja ríkisstyrknum eða útvarpsgjöldunum í þessi félög. Hins vegar er hvergi talað um í 4. gr. að jafnframt eigi að tryggja fjárhagslegan aðskilnað á milli Ríkisútvarpsins og dótturfélaganna á sama hátt og tryggja á ritstjórnarlegan aðskilnað á milli Ríkisútvarpsins og dótturfélagsins. Ég held því að skerpa þurfi á því akkúrat þarna.

Þessi 4. gr. er æðivíðfeðm en í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Lagt er til að eftirfarandi starfsemi Ríkisútvarpsins fari fram í dótturfélögum: sala auglýsinga- og kostunarrýmis í dagskrá móðurfélagsins, sala á dagskrárefni og sýningarrétti á eigin framleiðslu, samframleiðsla á efni með erlendum sjónvarpsstöðvum og fyrirtækjum, sala á dagskrárefni til almennings, leiga á aðstöðu, tækjum og búnaði, og sala á þjónustu og hlutum sem tengjast dagskrárefni.“

Kannski er það einmitt það sem hinar einkareknu sjónvarpsstöðvar eru að fást við frá degi til dags, það sem þeir sem þeirrar dagskrár njóta kaupa aðgengi að. Að mínu mati er Ríkisútvarpið hér að fara í beina samkeppni í því og ég hefði talið að við ættum að sleppa því. Ég hefði talið að við ættum að veita einkareknum útvarps- og sjónvarpsstöðvum tækifæri til að fara inn á þennan markað og að Ríkisútvarpið sinnti því hlutverki sem það ætti að gera, að vera fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu.

Í greinargerð með 4. gr. er talað um sölu á auglýsinga- og kostunarrými í dagskrá móðurfélagsins en í 7. gr. er þó gengið skemur í kostun en gert var ráð fyrir í breytingartillögu frá meiri hlutanum. Engu að síður er tilgreint í 4. gr. að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem dótturfélögin eigi að hafa, þ.e. sala auglýsinga- og kostunarrýmis.

Með breytingartillögunni erum við að draga úr því sem heimilt er að kosta. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpinu er óheimilt að afla tekna með kostun dagskrárefnis en þó má víkja frá því í eftirfarandi tilvikum:

a. við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti,

b. við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá.“

Þá veltir maður fyrir sér: Hvað eru íburðarmiklir dagskrárliðir þar sem mæta á útgjöldum við annaðhvort framleiðslu eða kaup á sýningarrétti með kostun? Erum við til dæmis að tala um það ef Ríkisútvarpið næði í enska boltann, þ.e. að til þess að geta sýnt enska boltann í Ríkisútvarpinu og til þess að fjármagna kaup á sýningarrétti væri heimilt að kosta slíka samninga? Þessu er ósvarað í greinargerðinni og þessu er líka ósvarað í nefndaráliti meiri hlutans. Þessari spurningu þyrfti að svara. Er hér verið að segja að Ríkisútvarpið geti boðið í enska boltann og fjármagnað þau kaup á sýningarrétti með almennri kostun? Mér finnst það ekki koma nægjanlega skýrt fram í frumvarpinu.

Það kann líka að vera að það sé algjörlega klárt í hugum þeirra sem skrifuðu frumvarpið og aftur nefndarinnar að við séum líka, samkvæmt 4. gr., að tala um fjárhagslegt sjálfstæði þessara dótturfélaga ásamt ritstjórnarlegum aðskilnaði á milli Ríkisútvarpsins og dótturfélaga þess. Þá þarf að orða það skýrar í þessari grein svo að það fari ekki milli mála.

Þá veltir maður fyrir sér hvaða kostnað þetta hafi í för með sér fyrir Ríkisútvarpið sjálft. Horfum við fram á að skipa þurfi fleiri stjórnir og fleiri stjóra ef ritstjórnarlegt og fjárhagslegt sjálfstæði á að vera aðskilið frá Ríkisútvarpinu, ef aðskilnaðurinn á að vera algjör? Erum við þá að tala um fleiri stjórnir? Erum við að tala um fleiri framkvæmdastjóra? Eða horfum við til þess að stjórn Ríkisútvarpsins hafi yfirumsjón með þessum dótturfélögum líka? Ef svo er, þyrfti það að koma fram. Hér stendur:

„Nánar skal kveða á um skipan stjórna í dótturfélögum Ríkisútvarpsins í samþykktum þess.“

Þá er væntanlega átt við samþykktir Ríkisútvarpsins, en ekkert er talað um það hvort sama stjórn og ríkir yfir Ríkisútvarpinu geti einnig verið stjórn dótturfélaganna sem hér eru tilnefnd.

Í 4. gr. kemur reyndar fram að fjárreiðum vegna sölu á birtingu viðskiptaboða, samkvæmt 7. gr., skuli halda aðgreindum frá starfsemi sem fellur undir 3. gr. Jafnframt stendur, og þá vitna ég í 3. lið um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Bjóða fjölbreytt og vandað menningarefni og fjalla um ólík svið menningar, lista og íþrótta á Íslandi og erlendis, auk þess að vera vettvangur umræðna og skoðanaskipta um íslenska menningu og samfélag.“

Geta viðskiptaboð samkvæmt 7. gr. átt heima samkvæmt 3. gr. frumvarpsins í 3. lið um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins?

Það er ýmislegt hér, virðulegur forseti, sem kannski þarf að skoða.

Í 5. gr. segir:

„Halda skal fjárreiðum alls reksturs vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu samkvæmt 3. gr. aðskildum frá fjárreiðum annars reksturs á vegum Ríkisútvarpsins eða dótturfélaga þess.“

Væntanlega er þá þannig komið að þessi dótturfélög þurfi að hafa algjörlega fjárhagslegt sjálfstæði. Þá veltir maður fyrir sér: Til hvers er þá verið að stofna dótturfélög? Af hverju er þessu ekki einfaldlega beint til annarra sem eru á markaði og sú þjónusta sem hugsanlega þarf að vera til staðar keypt af þeim?

Virðulegur forseti. Í 7. gr. um auglýsingar eða viðskiptaboð kemur ný málsgrein, eins og ég las upp áðan, um það að Ríkisútvarpinu sé óheimilt að afla tekna nema við ákveðin tækifæri. Mig langar að spyrja hv. framsögumann nefndarinnar, Skúla Helgason, hvort 3. mgr., þar sem við tölum í 7. gr. um myndmiðlun, og það sem þar kemur fram í a- og b-lið, muni ekki standa óbreytt þrátt fyrir að á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein. Eða er það svo að hitt falli brott? Ég gat ekki skilið það þannig að svo væri, en vildi gjarnan fá nánari skýringar á því af hálfu hv. þingmanns ef hann vildi vera svo vinsamlegur að útskýra það frekar. Í breytingartillögunum er eingöngu sagt að á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, en ég get ekki séð að hin eigi að falla brott. Ég bið hv. þingmann um að útskýra það aðeins nánar. Ef það hefur verið tilgangur breytingartillagna meiri hlutans vantar aðeins upp á skýrleika þess.

Mig langar síðan að víkja aðeins að 9. gr., um stjórn Ríkisútvarpsins. Mér finnst þetta flókið og tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni og spyr af hverju það er allsherjar- og menntamálanefnd en ekki bara Alþingi sem tilnefnir fulltrúa. Mig langar líka að biðja hv. þingmann um að svara þessu ef hann er til þess bær: Kjósa á valnefnd til að tilnefna fimm fulltrúa, „sem skulu kosnir í stjórn Ríkisútvarpsins“, eins og segir í frumvarpinu. Þessi valnefnd tilnefnir því aðila sem aðalfundi er svo væntanlega skylt að kjósa í stjórn Ríkisútvarpsins, því að það stendur beinlínis að þeir skuli kosnir í stjórn. Hvað ef aðrir aðilar eru tilnefndir á aðalfundi Ríkisútvarpsins? Er kosið um þá? Eða getur aðalfundur ekki komið með tilnefningu til stjórnar af því að þetta er orðað á þann veg að þeir skuli kjörnir? Ef svo er þá tilnefnir valnefnd fimm aðila og aðalfundi ber að kjósa þá fimm sem valnefndin hefur tilnefnt í stjórn, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, þeim sem eiga sæti á aðalfundi Ríkisútvarpsins. Mér finnst örlítið vanta upp á þarna, hvort þetta er sá skilningur sem á að leggja í þetta. Gæti það hugsanlega komið upp á aðalfundi, þegar kjósa á stjórn Ríkisútvarpsins, að fram komi önnur tillaga þar sem stjórnarmenn uppfylla hæfi samkvæmt 66. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari lagabreytingu — hvernig ætti að meðhöndla slíka tillögu? Allt getur gerst.

Þessar hugleiðingar kviknuðu við lestur þessa frumvarps, þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann hvort slíkt gæti hugsanlega komið upp, eða hvort þessi nálgun mín er víðs fjarri því sem við gætum staðið frammi fyrir.

Virðulegur forseti. Ég kem líka örstutt að 12. gr. um réttindi og skyldur starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna.

Ég verð að segja að mér finnst það með ólíkindum að binda í lög, hjá slíku einkahlutafélagi sem Ríkisútvarpið er, réttindi og skyldur starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna einna og láta alla aðra sem hjá þessu sama fyrirtæki starfa vera háða einhverjum öðrum greinum. Það er alveg ljóst að þetta tekur eingöngu til starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna. Ég vil spyrja hv. þm. Skúla Helgason hvernig á því standi. Af hverju þarf í lögum um Ríkisútvarpið að tilgreina þessa tvo hópa starfsmanna Ríkisútvarpsins umfram aðra? Af hverju þarf löggjafinn að setja inn það sem þarf að standa í þeim starfsreglum sem starfsmannafélög Ríkisútvarpsins setja sér? Er það löggjafans að mæla fyrir um að í þeim starfsreglum þurfi þetta eða hitt að standa? Mér finnst þetta — ég ætla ekki að nota orðið ógeðfellt, en það nálgast það.

Í 14. gr. er rætt um markaðar tekjur til Ríkisútvarpsins. Fjárlaganefnd Alþingis hefur í heild sinni lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að dregið verði úr og alfarið horfið frá hinum mörkuðu tekjum og allt fari inn í ríkissjóð og þaðan út. Nú er það svo að með þær mörkuðu tekjur sem hér eru — þetta er ekki nefskattur, vegna þess að eingöngu þeim sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laga um tekjuskatt og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild ber að greiða þennan skatt til Ríkisútvarpsins. Ég spyr: Þegar fyrir liggur frá meðal annars fjárlaganefnd — mér er reyndar kunnugt um að hvorugur stjórnarflokkanna hefur afgreitt það mál úr sínum þingflokki, sem fjárlaganefndin stendur þó öll að — hvernig stendur þá á því að verið er að leggja fram í þessu frumvarpi að með tekjustofn Ríkisútvarpsins skuli farið á þennan hátt, þegar verið er að reyna að draga úr þessum mörkuðu tekjum á öðrum vígstöðvum? Þetta skýtur skökku við.

Virðulegur forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum að sinni. Ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá því að ég var ekki alveg búin með það sem ég ætlaði að nefna til sögunnar varðandi frumvarp til laga um Ríkisútvarpið.