141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir málefnalega ræðu. Hún beindi til mín allnokkrum spurningum sem ég mun reyna að komast yfir á þessum stutta tíma. Reyndar svaraði hv. þingmaður sjálf eiginlega fyrstu spurningunni um samhengið á milli 4. gr. og 5. gr. Það er rétt að ekki er sérstaklega kveðið á um þennan fjárhagslega aðskilnað dótturfélaganna frá móðurfélaginu í 4. gr., en það er hins vegar gert í 5. gr. Það er býsna skýrt að mínu mati kveðið á um að þarna sé ekki eingöngu á ferðinni ritstjórnarlegur aðskilnaður heldur fjárhagslegur sömuleiðis.

Varðandi greinina sem fjallar um kostun er rétt að vekja athygli á því að þarna er verið að stíga mjög merkileg skref. Þarna eru lagðar til meiri takmarkanir á umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en nokkur dæmi eru um í sögu þess. Það er auðvitað gert í þeim tilgangi að við séum með öflugt ríkisútvarp á fjölmiðlamarkaði en sömuleiðis og ekki síður einkamiðla sem geta vel þrifist á þeim markaði. Með frumvarpinu er verið að færa 350–400 milljónir frá Ríkisútvarpinu og yfir á einkamiðlana þannig að þeir geti keppt um þá fjármuni.

Varðandi íburðarmikla dagskrárliði sem nefndir eru í undanþágutilvikinu eru þeir sérstaklega nefndir í greinargerðinni. Þar er átt við stórviðburði á íþróttasviðinu eins og Ólympíuleika, heimsmeistarakeppni í knattspyrnu og handknattleik og síðan Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og undankeppnina hér heima. Ég vek sérstaka athygli á því að meiri hlutinn í nefndaráliti sínu kveður sérstaklega á um að þetta undanþáguákvæði skuli skilgreina þröngt og lítur svo á að þetta sé tæmandi upptalning. Ríkisútvarpið hafi því ekki heimild til að setja aðra hluti þarna inn eins og t.d. enska boltann eða aðra þætti.