141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um 7. gr. sem fjallar um viðskiptaboð og kostun. Ég get upplýst það hér að sú breytingartillaga sem nefndin leggur til á eingöngu við um 2. mgr., það er eingöngu verið að hnykkja skýrar á því eða þrengja í raun og veru þá undanþáguheimild sem var opnari í frumvarpinu eins og það var lagt fram. Önnur ákvæði sem tilheyra 7. gr. standa sannarlega eftir óbreytt, þar á meðal þessi afar mikilvæga grein sem fjallar um þakið á auglýsingatímanum, að auglýsingar skuli ekki fara yfir 8 mínútur á hverri klukkustund. Það skiptir miklu máli í því heildarsamhengi sem takmarkanir á veru RÚV á auglýsingamarkaðnum eru.

Varðandi 9. gr. er þetta sjónarmið sem hefur ekki komið fram í umfjöllun nefndarinnar, en það er alfarið okkar skilningur að eina breytingin sem verið er að gera hér er sú að verið er að hverfa frá því að þingið sjálft skipi fulltrúana beint í stjórnina. Aðkoma þingsins er núna í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd að tilnefna fulltrúa í þá valnefnd sem skipar síðan stjórnina. Rétt eins og núna er ekki um að ræða að opið sé fyrir það að aðalfundur ákveði að hafa þessar tilnefningar að engu. Eina breytingin er því sú að þarna er búin til þessi fjarlægð, sem menn hafa kallað armslengdarfjarlægð, frá pólitíska valdinu yfir í skipan stjórnarinnar. Rétt er að ítreka að þetta atriði, rétt eins og það að RÚV fái útvarpsgjaldið allt til ráðstöfunar en ekki einhvern hluta þess sem ákveðinn sé í fjárlögum hvers árs, er til að treysta fjárhagslegt og efnislegt sjálfstæði þessarar stofnunar sem hefur svo mikilvægu hlutverki að gegna.