141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég man eftir fjölmiðlalögunum. Það var aðeins meira fjör hér í salnum þegar ég hélt ræðu um fjölmiðlalögin. Það var svolítið eins og í fuglabjargi. Mikill hiti var í hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, (Gripið fram í.) sem eru nú hv. stjórnarliðar. Manni voru ekki vandaðar kveðjurnar. Útgangspunkturinn minn þá og nú er sá að ég held að það sé miklu betra og farsælla fyrir þjóðfélagið að fleiri segi fréttir en færri. Ég held að það sé stórhættulegt að þeir séu mjög fáir, ég tala nú ekki um að einn aðili einoki upplýsingaveitu eins og fréttir og fréttaskýringar eru.

Hv. þingmaður nefndi að vandinn væri sá að hér væri um að ræða einn eiganda. Ég held að vísu að málið sé ekki alveg svo einfalt. Það hefur örugglega eitthvað með málið að gera en ég held að það séu fleiri þættir. Ég held, virðulegi forseti, að við sjáum ekki þá breytingu að Ríkisútvarpið verði selt.

Oft er talað um að hér séu mikil átök, en nú er slík friðsemd í salnum að annað eins hefur varla gerst. Ég ætla þess vegna að gera heiðarlega tilraun og sjá hvort við getum rætt það og komið okkur saman um, úr því að við erum með ríkisfjölmiðil, hvernig þessu máli sé best fyrir komið. Það væri áhugavert að heyra frá hv. þm. Pétri Blöndal, sem oftar en ekki hugsar út fyrir boxið, hvort hann sjái einhverja lausn á þessu máli (Forseti hringir.) án þess að selja Ríkisútvarpið.