141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður hefur ákveðna tilfinningu fyrir hlutunum. Hún þarf ekki endilega að vera rétt. Manni finnst eitthvað. Manni finnst til dæmis Spegillinn vera hallur undir vinstri menn. Mér og hv. þingmanni finnst það af því að við erum hægri sinnar. Það getur vel verið að sú tilfinning sé röng. Ég hygg að þegar núverandi stjórnarliðar verða komnir í stjórnarandstöðu muni þeir upplifa það sama vegna þess að þá verða kallaðir til ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar, þá verða kallaðir til formenn nefnda og aðrir. Þeir munu þá upplifa að miklu meira hafi verið talað við stjórnarliða en stjórnarandstæðinga. Þetta er bara skekkja sem leiðir af því að það er einn eigandi að fjölmiðlinum og hann er ríkisvaldið. Þetta er nákvæmlega eins og í öðrum fjölmiðlum. Þegar einn aðili kaupir allt í einu einkafjölmiðil af öðrum þá breytist afstaða manna til viðkomandi. Sama mun gerast þegar skipt verður um eiganda með nýrri ríkisstjórn, jafnvel þó að þeir starfsmenn sem þarna starfa reyni eins og þeir mögulega geta að gæta hlutleysis og fá allar skoðanir fram.

Ég hef einu sinni verið kallaður í Spegilinn. Það var vegna þess að ég var með frumvarp sem var í andstöðu við frumvarp flokks míns, kvótafrumvarpið. Það var rætt mikið um það. Það var greinilega áhugavert að heyra eitthvað sem var í andstöðu við minn flokk.

Hvað er til ráða? Ég held að það sé ekkert. Ríkisfjölmiðill verður alltaf ríkisfjölmiðill hvort sem hann er ríkisdagblað eða ríkisútvarp eða hvað hann kallast, hann verður alltaf ríkisfjölmiðill, hann verður alltaf í eigu eins aðila. Það eina sem getur gerst er að þróunin gangi að ríkisfjölmiðlinum dauðum vegna þess að það er gífurleg breyting á fjölmiðlamarkaði, (Forseti hringir.) sem ég mun koma inn á í ræðu minni á eftir.