141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég á að segja að hv. þingmaður sé bjartsýnn eða svartsýnn. (Gripið fram í.) Ætli hann sé ekki svartsýnn þegar hann segir að fréttaskýringaþættir sveiflist í rauninni eftir því hver stýri eigendavaldinu? Ætli það fari ekki eftir því hvers konar ríkisstjórn er? Ég man að vísu ekki eftir hægri slagsíðu á Speglinum en jafnvel þó að hún kæmi ef hægri stjórn kæmi þá er það ekki gott. Það er ekki gott.

Ég held að vísu að við séum einhverra hluta vegna í þessari stöðu. Í Noregi var einhvern tíma gerð skoðanakönnun, og í fleiri löndum, um hvað fréttamenn kysu. Um 80–90% kusu vinstri flokka. Það er svo sem þekkt þegar menn greiða úr skoðanakönnunum og flokka eftir stéttum þá er svolítið misjafnt hvernig litrófið er. Nú er auðvitað ekki æskilegt að setja kvóta á þessa hluti, ég er ekki að halda því fram, en það er hins vegar vont ef það er slagsíða hjá ríkisfjölmiðlum, alveg sama í hvora áttina eða í hvaða átt hún er.

Það eru kjöraðstæður fyrir okkur núna, virðulegi forseti, þegar stutt er til kosninga og enginn veit hvernig næsta ríkisstjórn verður, að fara yfir þetta og reyna að gera breytingar til bóta sem gera það að verkum að hér verði meiri hlutlægni í fréttum og fréttaskýringum hjá ríkisfjölmiðlinum. Ég sé hins vegar ekkert í þessu frumvarpi sem miðar að því. Ég sé ekkert í þessu frumvarpi sem miðar að því að taka alvöruskref hvað varðar að skilgreina hlutverk (Forseti hringir.) Ríkisútvarpsins. Það þykir mér miður.