141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ræðuna. Hann kom víða við. Það var tvennt sem ég vildi vekja athygli á eða taka upp við þingmanninn.

Í fyrsta lagi það sem lýtur að hlutverki og skyldum Ríkisútvarpsins. Það er hárrétt hjá þingmanninum að býsna ítarlega er farið í gegnum það í 3. gr. frumvarpsins hvert hlutverk Ríkisútvarpsins sé. Því er skipt niður í þríþætt hlutverk, lýðræðislegt, menningarlegt og félagslegt. Í lokagreinunum er reyndar hnykkt á starfsháttum sem Ríkisútvarpið eigi að hafa í heiðri.

Ég vek hins vegar athygli á því að í gildandi lögum um Ríkisútvarpið er að finna mjög sambærilega skilgreiningu á útvarpsþjónustu í almannaþágu. Hún er svo ítarleg að ég hef enga möguleika á því að fara yfir hana hér í stuttu andsvari. Hún er í 13 liðum. Þar segir meðal annars, svo að ég grípi einhvers staðar niður, að útvarpsþjónusta í almannaþágu feli í sér að senda út til alls landsins og næstu miða að minnsta kosti eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring, sömuleiðis að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar, efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni, að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og tryggja með þeim hætti hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.

Það eru þó ekki nema sjö liðir en ekki 13 í þessu frumvarpi varðandi almannaþjónustuhlutverkið. Ef við erum á því að þrengja þurfi hlutverk Ríkisútvarpsins er það sannarlega ekki gert í gildandi lögum og heldur ekki í þessu frumvarpi. Það er sérstakt viðfangsefni sem væri svo sem áhugavert að fara í gegnum. En ég vek athygli á því að í efnismeðferð þessa máls hafa aldrei komið fram neinar tillögur um hvernig ætti að þrengja hlutverk Ríkisútvarpsins.