141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það breytir engu um eðli vandamálsins þó að það hafi verið til staðar lengi. Ef hv. þingmaður er að segja: Þið sjálfstæðismenn voruð bara ekkert skárri — þá skal ég taka því, en það breytir ekkert málinu. Ég skal bara taka það á mig persónulega ef svo ber undir, það er ekkert vandamál. En ef við getum farið á þann stað að ræða þetta vil ég spyrja hv. þingmann: Finnst honum ekki eðlilegt að skilgreina, svo að við vitum hvar við höfum Ríkisútvarpið, hvað það á að gera, burt séð frá því að við getum verið ósammála um hvað það geri? Það er engin skilgreining á því núna.

Ég las hér upp áðan:

„Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.“

Mér dettur ekkert í hug sem er fyrir utan þetta, en þetta er samt hið minnsta.

Ef við gætum bara komist á þann stað að diskútera og deila — ég vil að eitthvað sé inni en hv. þingmaður vill kannski hafa eitthvað annað inni en ég ekki — held ég að við værum komin eitthvað áleiðis. Ég heyri alla vega, miðað við þessa upptalningu, að farið sé fram á að lágmarkið þurfi að vera tvær hljóðvarpsrásir í staðinn fyrir eina. Það er ekki stærsta einstaka málið. Ég tel afskaplega mikilvægt að við skilgreinum hlutverkið. Það er ekki gert, hefur ekki verið gert, þarf að gera.

Sömuleiðis sé ég ekkert í umræðunni varðandi hlutlægnina. Við getum kannski skipst á skoðunum um það mál á eftir.

Það væri hins vegar ágætt að hv. þingmaður upplýsti mig, það hefur kannski farið fram hjá mér, en í umsögn fjárlagaskrifstofunnar er gert ráð fyrir því að þetta kosti 700 milljónum meira á hverju ári. [Sjá leiðréttingu þingmanns kl. 20.58.] Er eitthvað komið til móts við það í umfjöllun eða tillögum nefndarinnar að lækka þá upphæð?