141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst viðbrögð við þessu síðasta. Já, það er sannarlega komið til móts við það í frumvarpinu að lækka það fjármagn sem RÚV hefur til ráðstöfunar og er það gert með þeim tillögum sem eru í frumvarpinu og hafa aldrei verið áður í frumvarpi um Ríkisútvarpið, að taka takmarka verulega umsvif þess á auglýsingamarkaðnum. Það er metið sem svo að það muni minnka tekjur Ríkisútvarpsins um 350–400 milljónir á hverju ári. Það er einmitt þetta sem hefur vakað fyrir bæði framkvæmdarvaldinu og meiri hlutanum í þessari vinnu, þ.e. að reyna að skapa betra jafnvægi þannig að Ríkisútvarpið geti þrifist og sannarlega líka einkaaðilar á markaðnum.

Það var athyglisverð umfjöllun hv. þingmanns varðandi pólitíkina, það sem hann kallaði einsleitni í umfjöllun hjá Ríkisútvarpinu hvað varðar stjórnmál. Þetta eru sjónarmið sem heyrast reyndar á báða bóga. Þingmaðurinn benti hér á Spegilinn og Silfur Egils þar sem honum fannst vera pólitísk skekkja í þeirri umfjöllun. Á móti hafa margir bent á að oft sé skekkja í fréttaumfjöllun frá þinginu, sérstaklega í ríkissjónvarpinu. Ég ætla ekkert að gerast dómari í því máli og vil raunar ganga svo langt að segja að það skiptir engu máli hvað mér finnst. Reyndar skiptir máli að það sem mér finnst eða öðrum þingmönnum í salnum hafi einmitt ekki áhrif á dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins og fréttamat.

Ég vek athygli á því að í frumvarpinu er áskilnaður, sem hefur ekki verið inni áður, um að Ríkisútvarpið skuli í starfsháttum sínum vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum. Það skapar held ég mjög mikilvægt aðhald sem menn geta notað til þess að halda fréttamönnum og starfsmönnum Ríkisútvarpsins við efnið.