141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér skiptir litlu máli hvað stendur í lögum ef ekkert aðhald er eða einhver trygging fyrir því að farið sé eftir þeim. Ég held að það hafi alltaf verið í lögum um Ríkisútvarpið að menn eigi að gæta hlutlægni. Ég man ekki eftir öðru, get ekki ímyndað mér að menn hafi sett eitthvað annað inn, eins og að það ætti að taka tillit til stjórnmálaskoðana einstakra þingmanna eða flokka, ég get ekki ímyndað mér það.

Ég var í sjálfu sér bara að vísa í umfjöllun Viðskiptablaðsins þar sem þeir tóku fyrir viðmælendurna, ég las það upp. Ég fór ekki mikið í það hvað mér finnst. Ég hef svo sem sterkar skoðanir á þessu máli en ætlaði ekki að fara sérstaklega í það. Það er hægt að mæla ýmsa hluti og þetta eru eftir því sem ég best veit staðreyndir sem liggja fyrir. Þær hljóta að vekja athygli, það getur ekki annað verið.

Ég hef að vísu ekki heyrt umræðu um fréttirnar, að það sé slagsíða varðandi þær nema á hinn veginn, en gott og vel. Spurningin er hvort það sé eitthvað hægt að mæla það.

Ég spurði hv. þingmann út í ríkisútgjöldin því að þau hækka um 700 milljónir á ári ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Kannski hefur hv. þingmaður eitthvað misskilið mig. Ég sé hvergi að komið sé til móts við þá hækkun. Hún gengur þvert á áætlanir í ríkisfjármálum.

Ef hv. þingmaður er að vísa í það sem var í frumvarpinu varðandi takmörkun á auglýsingatíma hefur verið bent á að það muni ekki skila sér í neinni lækkun sem neinu nemi varðandi auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins. Við tókum nokkuð mikla umræðu um það hér þegar frumvarpið var lagt fram.

Sömuleiðis, varðandi kostunina, sýnist mér að allir stærri þættir séu inni í undanþáguákvæðinu þannig að það er ekki hægt að sjá (Forseti hringir.) að það muni hafa mikil áhrif.

Við þurfum líka að horfa á ríkissjóðinn og sjá til þess að við náum endum saman fyrr en seinna.