141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég vildi spyrja hann um tvennt. Það er annars vegar, af því að hann hefur ekki neinar áhyggjur af hlutleysi eða meðferð í fréttum og fréttaþáttum, hvort það veki hann ekki til umhugsunar að frá kosningum til apríl 2012 hafi flokkurinn hans verið 82 sinnum í Speglinum, Sjálfstæðisflokkurinn 23 sinnum og Framsóknarflokkurinn 18 sinnum. Vekur það ekki upp neinar spurningar?

Hitt er hvort hv. þingmaður telji einhverja ástæðu til að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins eða hvort hann telji eðlilegt að það sé úti um allt.

Í þriðja lagi kallar þetta á 700 millj. kr. aukakostnað árlega af hendi ríkissjóðs. [Sjá leiðréttingu þingmanns kl. 20.58.] Veldur það hv. þingmanni ekki áhyggjum og sér hann fyrir sér að því gati verði lokað með skattahækkunum eða niðurskurði?