141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með spurninguna sem snýr að því hvernig eigi að ná í peningana sem eiga að koma úr ríkissjóði 1. janúar 2014 þegar lögin hafa tekið gildi, ef þau verða samþykkt hér. Ríkisútgjöldin aukast reyndar um 875 milljónir. Ég held hins vegar að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að á meðan við setjum peninga í Ríkisútvarpið setjum við ekki peninga í Landspítalann.

Af því að þetta snýst um forgangsröðun í ríkisfjármálunum langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann geti verið sammála mér um að meiri þörf sé á að setja 900 milljónir í Landspítalann en að auka útgjöld Ríkisútvarpsins.