141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef verið að ígrunda hvort ég eigi að flytja breytingartillögu við þetta mál eða ekki. Hún lýtur þá að alveg sérhæfðu atriði og varðar kynningu stjórnmálaflokka á framboði til almennra kosninga. Ég náði ekki að fara mjög vandlega ofan í það nefndinni í lokin en við völdum að RÚV hefði ritstjórnarlegt vald á þeim kynningum sem fram færu.

Ég er á nefndarálitinu með hv. þm. Ólafi Gunnarssyni o.fl. en ég er með fyrirvara sem lýtur að því að ég hefði líka viljað sjá það sem Finnur Beck og nefnd hans lagði til, þ.e. að hægt væri að kynna framboð í eins konar hefðbundnum auglýsingatíma, það sem kallast „free airtime“, þ.e. ókeypis tími í loftinu, auglýsingatíma þar sem Ríkisútvarpið hefði ekki þetta ritstjórnarlega vald. Þetta væri bara eins og hver önnur auglýsing nema ekki væri greitt fyrir hana. Slíkt form gæti verið mikilvægt fyrir framboð.

Mundi hv. þingmaður (Forseti hringir.) styðja slíka breytingartillögu ef hún kæmi fram? Sér hv. þingmaður eitthvað því til fyrirstöðu að við hefðum báðar þessar aðferðir inni?