141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tek undir þetta með þingmanninum, auðvitað á ég ekki við að það ætti að vera bein ritstýring eða ritskoðun á því efni sem kæmi fram. Hins vegar þyrfti efnið að vera í samræmi við lög og ekki meiðandi eða hatursfullt.

Ég er sammála þingmanninum að því leyti að þetta tvennt getur farið ágætlega saman. Það er einmitt ekki alveg gefið eins og þingmaðurinn kemur inn á að til að mynda stjórnmálasamtök sem hafa kannski tiltölulega þrönga sýn á tiltölulega fá málefni gætu komið stefnumálum sínum á framfæri í stöðluðu formi og eru því kannski sjálf betur fær til þess, eða aðilar á þeirra vegum, að búa það efni til. (Forseti hringir.) Ég held að það væri þess virði að skoða það.