141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að oft upplifir maður ekki alveg að maður hafi verið á þeim fundum sem sagt er frá í fjölmiðlum. Það á bæði við um ríkisfjölmiðlana og aðra fjölmiðla, ég held að það sé ekki bara á annað borðið.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði út í varðandi samkeppni og hvernig hún ætti að geta átt sér stað er að mínu viti vikið að því í þessu frumvarpi að nokkru leyti, sérstaklega þar sem komið er inn á takmarkanir á auglýsingum og kostun í ríkisfjölmiðlunum. Það er komið inn á þá þætti, að það er mikilvægt að takmarka hliðrun í samkeppni sem klárlega er þegar Ríkisútvarpið er af fullum krafti á auglýsingamarkaði eins og getur orðið án þessara laga (Forseti hringir.) og þess vegna er einmitt mikilvægt að þau ákvæði gangi í gegn.