141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér áfram frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Mig langar að halda áfram þar sem ég var í andsvörum við hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson áðan um forgangsröðun fjármuna ríkissjóðs.

Það kemur alltaf upp sú spurning hvort sanngjarnt sé að bera saman eina stofnun við aðra, en hins vegar liggur hér fyrir að það á að auka útgjöld ríkisins. Ég nefndi Fæðingarorlofssjóð í fyrri ræðu minni í dag og þegar maður ræðir þessa hluti blasir hér við mjög mikil aukning á ríkisútgjöldum. Þess vegna nefni ég þessi dæmi, ekki út af neinu öðru. Á sama tíma er verið er að skera niður og fjárþörfin til að mynda á Landspítalanum æpir á mann eða blasir við, það er auðvitað réttara orð.

Mig langar að beina því til hv. þm. Skúla Helgasonar, því ég sé að hann er að hlusta, hvort það hafi verið greint í nefndinni hver tekjuskerðingin verður. Það kemur ekki fram í nefndarálitinu. Samkvæmt gróflegu mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er áætlað að þessi útgjöld, 875 millj. kr., verði að minnsta kosti helmingi meiri en sem nemur þeirri tekjuskerðingu sem verður hjá Ríkisútvarpinu við þær hömlur sem settar eru á stöðu þess á auglýsingamarkaði auk annars.

Mig langar að spyrja hvort það hafi komið fram í meðförum nefndarinnar hver sú tala er, hvað sé áætlað að tekjur Ríkisútvarpsins muni dragast saman um á árinu 2014 vegna þeirra ákvæða sem eru í frumvarpinu. Nú á ég ekki sæti í hv. nefnd þannig að það væri mjög fínt ef þetta kæmi fram. Ég hef hlustað hér á nokkrar ræður og menn virðast ekki alveg ná að fóta sig þarna, hvað þetta þýði í raun og veru. Það á að setja 875 millj. kr. þarna inn og sumir halda því fram að þetta muni hafa óveruleg áhrif, aðrir mikil og þar fram eftir götunum. Það væri gott að vita ef þetta lægi fyrir og hefði verið greint og skoðað í nefndinni.

Ég vil líka ítreka áður en ég held lengra áfram að ég geri mér fulla grein fyrir mikilvægi Ríkisútvarpsins, t.d. því sem snýr að almannavarnaþættinum. Ég vil að það fari ekkert á milli mála og komi skýrt fram svo að ekki sé hægt að snúa út úr því seinna meir. Þetta liggur alveg fyrir. Síðan er alltaf sagt þegar verið er að bera saman fjármuni sem settir eru til einstakra stofnanir ríkisins að ekki megi bera saman hina og þessa stofnunina, það sé ekki réttlætanlegt. En af hverju skyldi ég gera það í þessu tilfelli? Það er vegna þess að hér er verið að auka útgjöld um þessa upphæð. Þess vegna ber ég saman þessa stofnun, en ekki einhverja aðra, og fjárþörf hennar og þá fjárþörf sem blasir við á öðrum stöðum, til að mynda í heilbrigðiskerfinu eða í löggæslunni.

Ég vil líka koma aðeins inn á andsvar sem hv. þm. Skúli Helgason átti við hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Hún vísaði í umsögn fjárlaganefndar og sagði að fjárlaganefnd tæki undir mikilvægi þess að Ríkisútvarpið væri ekki undir pólitískum áhrifum eða þrýstingi, eða hvað sem við eigum að kalla það, og að tryggja ætti sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Við erum öll sammála um það þó svo að við getum deilt um hvernig það virki. En það er alveg klárt. Niðurlagið í umsögn fjárlaganefndar hljóðar þannig að það sé engin ástæða til að breyta því fyrirkomulagi sem núna er. Þá blasir auðvitað við sú spurning hvort þeir sem vilja halda þessari leið fram telji að það sé brýn þörf á því að bregðast við núna, það hafi verið óeðlileg pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu. Hefur það komið fram í meðförum nefndarinnar? Það væri ágætt að það kæmi fram.

Ég vil líka koma því að í umræðunni að ég man eftir því við fjárlagagerðina fyrir árið 2011, haustið 2010, þegar kom fram tillaga inn í meiri hluta fjárlaganefndar um að auka útgjöld Ríkisútvarpsins um ákveðna upphæð til að tryggja hlut landsbyggðarinnar eða svæðisstöðvanna úti á landsbyggðinni. Ég man að mér líkaði þetta afskaplega illa og fannst liggja ákveðin hótun í því um að ef þetta yrði ekki gert yrði skorið niður á þessum stað en ekki öðrum. Ég sagði meira að segja, þegar þessi tillaga var kynnt, að mín skoðun væri sú að fyrst þetta væri komið í þennan farveg væri best að leggja bara Ríkisútvarpið niður, það væri mín skoðun ef menn væru farnir að vinna svona. En síðan kom hið rétta í ljós þegar útvarpsstjóri mætti á fund fjárlaganefndar. Þessi beiðni kom nefnilega ekki frá útvarpsstjóranum. Hún kom frá hluta af meiri hlutanum í fjárlaganefndinni sem setti þetta fram svona. Það eru þau einu beinu pólitísku afskipti af þessum fjölmiðli sem ég hef getað séð. En það er auðvitað mikilvægt að fá það fram hvort nefndin hafi talið fulla ástæðu til að bregðast við einmitt núna og færa í þann farveg að setja í útvarpið tæpar 900 millj. kr.

Af hverju skyldi hv. fjárlaganefnd gera athugasemd við þetta? Þar er ekki pólitískur ágreiningur um að ná þurfi tökum á mörkuðum tekjustofnum, allir hv. þingmenn sem sitja í nefndinni eru á þeirri skoðun. Af hverju skyldi það vera? Það er ekki vegna þess að okkur sé prívat og persónulega illa við þær stofnanir sem hafa markaða tekjustofna, að við höfum eitthvert horn í síðu þeirra. Það er ekki vegna þess. Það er eingöngu til að ná meiri aga í fjárstjórnarvaldi Alþingis og ekki bara það heldur líka til að styrkja í raun og veru fjárstjórnarvald Alþingis. Og hvers vegna? Hvað getið þið ímyndað ykkur að markaðir tekjustofnar séu miklir? Þeir nema um 100 milljörðum í fjárlögunum, rúm 20% fjárlaga er í mörkuðum tekjustofnum sem ákvörðunarvald Alþingis kemur ekki að með eðlilegum hætti að mínu mati. Þess vegna hefur hv. fjárlaganefnd unnið að því á þessu kjörtímabili, í nánu samstarfi við fjármálaráðuneytið, í þeim eina tilgangi að efla fjárstjórnarvald Alþingis og til að stofnanir standi jafnt, þær njóti sanngirni. Þetta fyrirkomulag með markaða tekjustofna er mjög ósanngjarnt. Ég geri mér fulla grein fyrir því í tilfelli Ríkisútvarpsins, þar sem um er að ræða skatt, að gjaldið þurfi ekki að renna allt til þess.

Það er eingöngu vegna þessa sem fjárlaganefnd gerir athugasemd. Og síðast en ekki síst, það er best að muna eftir að nefna það líka, til að bæta vinnubrögðin. Núna er fjárlaganefnd að fjalla um lokafjárlög ársins 2011. Ef við værum í eðlilegum fyrirtækjarekstri værum við að fjalla um lokafjárlög, niðurstöðu ríkisreiknings og reksturs fyrir árið 2012. Þetta er nefnilega einn liðurinn í því að við getum fært framar þá vinnu, einn liðurinn til viðbótar. Þess vegna hefur nefndin verið að fjalla um þessi mál. Þess vegna vakna svo margar spurningar hjá mér við þetta mál. Ég skil ekki og næ því ekki að á sama tíma og við búum við þann veruleika að fjármuni vantar í þau verkefni sem allir telja vera brýnust skuli eiga að auka útgjöld Ríkisútvarpsins um 900 millj. kr. (Utanrrh.: Hvernig var ræða Bjarna … út í það?)

Ég vil auðvitað hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að koma hingað og taka þátt í umræðunni, hann gæti komið hingað í andsvar og átt málefnaleg orðaskipti við mig. Ég get hins vegar skilið að hæstv. utanríkisráðherra treysti sér ekki til þess, það sé betra fyrir hann að gjamma úti í sal til að gefa ekki færi á því, það er hið besta mál. (Utanrrh.: … fyrir sjómenn að tala um sjó.) Og ef hæstv. utanríkisráðherra færi í ræðu skal ég heita honum því að ég kæmi hingað í andsvör og ræddi þetta við hann. Hann sem einn af forustumönnum ríkisstjórnarinnar hlýtur að vera með svör á reiðum höndum um það hvers vegna hægt er að auka útgjöld ríkissjóðs til Ríkisútvarpsins um 900 millj. kr. þegar ekki er hægt að sinna brýnustu verkefnum og það er neyðarástand á Landspítalanum. Hvers vegna? Það getur ekki verið að það standi í hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í: …skuldasöfnun.) að svara þeim spurningum sem eru svo augljósar að mati hæstv. utanríkisráðherra. Það liggur klárt fyrir.