141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja þar sem hv. þingmaður endaði. Það liggur fyrir að við höfum fljótt á litið kannski tvær aðferðir til að gera þetta. Ríkisútvarpið er náttúrlega bæði á fjárlögum og fær allan skattinn og síðan á auglýsingamarkaði og nær í tekjur þannig.

Ég held að það séu engar deilur um það í þinginu að menn vilji sjálfstæði Ríkisútvarpsins, það eru væntanlega engar deilur um það. En ég bendi á að niðurstaða fjárlaganefndar er alveg klár, og þar skiptir ekki máli hver á sæti í henni, þar sitja fulltrúar allra flokka. Ég vil lesa orðrétt úr umsögn nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Fjárlaganefnd tekur undir nauðsyn þess að standa þurfi vörð um sjálfstæði Ríkisútvarpsins sem ætlað er veigamikið hlutverk í fjölmiðlun á Íslandi. Það á ekki síst við um fjárhagslegt sjálfstæði stofnunarinnar. Nefndin bendir hins vegar á að það markmið á að geta staðið óbreytt, þó að fjármögnun stofnunarinnar sé ekki breytt frá því sem nú er.“

Þarna kemur alveg skýrt fram hvert álit hv. fjárlaganefndar er.

Ég er hins vegar ekki alveg sáttur við það, þó svo að ég hafi haldið tvær ræður um gjaldið og þessa útgjaldaaukningu, að þingmaðurinn segi að Sjálfstæðisflokkurinn sé allur á móti málinu. Allir nefndarmenn í fjárlaganefnd eru sammála um að breyta þessu vinnulagi. Það kemur mér verulega á óvart að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki standa hér á orginu vegna þessa máls vegna þess að þetta snýst einmitt um það sem verið er að reyna að vinna í samvinnu við ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra, að ná tökum á fjárstjórnarvaldi Alþingis. Að halda því fram að við séum á móti Ríkisútvarpinu er svipað og ef ég héldi því fram að hv. þingmaður væri á móti Landspítalanum. Þetta er ekki sanngjörn umræða. Þetta snýst um það hvernig við förum með markaðar tekjur og sértekjur. Það er mín skoðun, alveg sama hver á í hlut, hvort sem það er Ríkisútvarpið eða einhver önnur stofnun, það á allt að fara í ríkissjóð til að styrkja fjárstjórnarvald Alþingis. Við megum því ekki setja þetta svona upp og setja heilan flokk undir þó svo að ég sé algerlega á móti þessu vegna þess að þetta er prinsippmál. Menn eiga standa við ákveðin prinsipp.