141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það leiðir þá hugann að því sem ég hef áður velt fyrir mér í þessari umræðu og snertir það hvort um geti verið að ræða einhverja fjölmiðlaþjónustu sem talin er í samkeppnisrekstri — mér hefur sýnst sem svo að það sem skilgreint er sem samkeppnisrekstur, sem setja á í dótturfélög, sé allt saman önnur starfsemi Ríkisútvarpsins en eiginleg fjölmiðlastarfsemi, þ.e. afleidd starfsemi, hliðarstarfsemi, stoðdeildarstarfsemi eða eitthvað þess háttar.

Það kæmi mér spánskt fyrir sjónir ef það væri mat Eftirlitsstofnunar EFTA að ekki gæti verið um að ræða samkeppni á sviði fjölmiðlunar vegna þess að ég held að tilurð reglna á þessu sviði sé einmitt sú að Eftirlitsstofnunin, á grundvelli samevrópskra reglna, sé að reyna að ná utan um það að skattfé almennings sé ekki notað til að niðurgreiða samkeppnisstarfsemi í fjölmiðlun, ekki bara leigu á tækjum eða myndbandaleigustarfsemi eða sölu á hljóðupptökum eða einhverju slíku, heldur hinni eiginlegu fjölmiðlastarfsemi. Ég ætla ekki að deila um þetta við hv. þingmann en ég tel ljóst að um þetta hljóti að verða spurt nánar þegar málið kemur til 3. umr.