141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna. Ég held að hún hafi verið hófstillt og málefnaleg en mér hefur ekki alveg fundist hún vera nægilega upplýsandi. Af því að hv. þingmaður kallaði áðan að búið væri að svara því hvernig sækja ætti þessar tæpar 900 millj. kr. sem þarf á hverju ári í reksturinn vildi ég vinsamlegast biðja hann um að upplýsa það hvernig það er gert. Það hefur bara farið fram hjá okkur sem tókum þátt í þessari umræðu.

Hv. þingmaður segir að við höfum verið að tala um að hlutverkið sé ekki skilgreint nægilega þröngt. Það er misskilningur. Mitt sjónarmið og ég held flestra sem hafa talað hér er að það sé ekki skilgreint. Ég las hér upp efnisgreinina um hvaða efni Ríkisútvarpið ætti að hafa og það er, eftir því sem mér skilst og er ég búinn að lesa það nokkrum sinnum, bara allt. Ég held að það sé ekki nægilega góð skilgreining. Ef hún er þarna þá er kannski miklu hreinlegra að segja bara að ekkert sé undanskilið. Hv. þingmaður nefndi að þetta væri ekki mikil breyting frá því sem áður hefði verið og ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni en það breytir ekki eðli málsins.

Ég vildi spyrja út í þessar 875 millj. kr. og sömuleiðis takmörkun varðandi auglýsingaöflunina. Nú var í umsögnum við frumvarpið himinn og haf á milli túlkunar Ríkisútvarpsins og nefndarinnar á því hvaða áhrif þetta hefði og samkeppnisaðilanna. Ég sá til dæmis umsögn frá Skjánum þar sem þeir bentu á að þetta væri ekki rétt, þetta mundi ekki hafa þessi áhrif á tekjuöflun Ríkisútvarpsins. Ég spyr: Er komin einhver sátt í þetta? Eru menn sammála um hvaða áhrif þetta muni hafa, þ.e. þær takmarkanir sem þarna er um að ræða?