141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við vitum þá að því hefur ekki verið svarað hvað varðar ríkisútgjöldin, hvernig komið verður til móts við það. Ég held að við getum verið sammála um þann þáttinn, það var ákveðinn misskilningur þarna á milli. En niðurstaðan er sú að við vitum ekki hvernig við eigum að ná þessum 900 millj. kr., sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins talar um nái frumvarpið fram að ganga.

Hv. þingmaður segir að þetta skipti ekki sköpum í ríkisbúskapnum. Í þeim málaflokki sem er mér mjög hugleikinn, sem eru heilbrigðismálin, skiptir hins vegar hver hundrað þúsund kall miklu máli. Allur sparnaður sem hefur náðst á Landspítalanum, sem er mikið í umræðunni, er til kominn í litlu upphæðunum. Ef við leikum okkur með það þá yrði það mjög vel þegið hjá þeirri heilbrigðisstofnun og öðrum að fá þessar upphæðir. Það segir sig sjálft að ef við munum auka ríkisútgjöldin vegna þessa um 900 millj. kr. þá mundi það koma einhvers staðar niður. Mér finnst að við verðum að svara því hvernig við ætlum að mæta því. Það hefur ekki verið gert í þessari umræðu.

Síðan er hitt, og við höfum tekið umræðu um það áður, að hægt er að setja takmarkanir eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þær þurfa þess vegna ekki að vera neikvæðar — það eru takmarkanir á ákveðnum mínútum, á auglýsingum. Þeir sem eru á þessum markaði telja að það hafi engin áhrif á Ríkisútvarpið einfaldlega vegna þess að nú þegar fyllir það ekki þann kvóta, ef ég man það atriði rétt. En hvort heldur sem er þá held ég að það skipti máli að við vitum nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur og væri ágætt að vita hvort niðurstaða væri komin í það mál í nefndinni.