141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er sú áætlun sem við unnum út frá. Eins og ég fór yfir í umræðunni fyrr í kvöld er það mat menntamálaráðuneytisins að þetta muni hafa áhrif sem nemur 365 millj. kr. eins og tiltekið er í greinargerð með frumvarpinu. Mun það skapa fullkomna sátt um málið? Ég hef ekki aðstöðu til að meta það. Það voru aðilar sem drógu í efa að þetta hefði tilætluð áhrif. Ég get þó vitnað í það að forsvarsmaður eins af þeim fjölmiðlum sem hvað umsvifamestir eru á einkamarkaðnum lýsti því yfir í umræðum fyrir nefndinni að hann teldi þær breytingar sem við leggjum til á frumvarpinu, sem þrengja enn frekar umsvifin t.d. varðandi kostunina, hafa þau áhrif að það sé betra að þetta frumvarp nái fram að ganga heldur en ekki. Þeir hafa sem sagt breytt um afstöðu, telja að þetta sé jákvætt skref en voru áður þeirrar skoðunar að það mundi ekki hafa tilætluð áhrif. Ég tel að það sé að minnsta kosti vísbending um að þetta frumvarp og þessar aðgerðir, sem eru fordæmalausar, að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaðnum, muni hafa þau áhrif sem við ætlumst til, þ.e. að auka jafnvægið á þessum mikilvæga markaði.