141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hyggst á þessum þingfundi, þegar langt er liðið á kvöld, gera stuttlega grein fyrir nefndaráliti meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um neytendalán sem hér kemur til 2. umr. Enn eru ekki komin fram nefndarálit minni hluta nefndarinnar, en þau gera það vonandi síðar á fundinum eða í upphafi fundar á morgun og gefst þá færi á því að mæla fyrir þeim.

Frumvarp til laga um neytendalán, sem hér er til umfjöllunar, miðar að því að styrkja stöðu neytenda á fjármálamarkaði og er innleiðing á tilskipunum Evrópusambandsins. Meðal þeirra nýmæla sem í frumvarpinu er að finna er hámark á þá vexti sem krefja má neytendur um, en umtalsverð umræða hefur farið fram meðal annars um svokölluð smálánafyrirtæki og ræddi nefndin þetta nýmæli nokkuð í sinni umfjöllun. Það þak sem sett er á vaxtatöku er 50% árlegs kostnaðar auk stýrivaxta Seðlabankans eins og þeir eru á hverjum tíma, nú um 6%. Þar af leiðandi væri þakið 56% ef það væri í gildi í dag. Það þýðir að allur kostnaður lántaka af láni á ársgrundvelli má ekki fara yfir þessa prósentutölu, 56%, og þá er allur kostnaður lántakans við lántökuna með talinn, hvort sem það eru verðbætur, vextir eða annar kostnaður í kringum lántökuna.

Við umfjöllun nefndarinnar kom í ljós að þetta mun ná til fleiri lána en lána smálánafyrirtækja og vekur það út af fyrir sig athygli að ýmis lán fara yfir þessi vaxtamörk sem sett eru, meðal annars lán sem markaðssett eru sem vaxtalaus lán. Nefndin telur þó að þessi mörk séu fullkomlega hófleg. Yfir helmingur í vexti af fjárhæð á ársgrunni er auðvitað gríðarlega mikil ávöxtun og öll færi eiga að vera fyrir fjármálafyrirtæki að bjóða þær vörur sem máli skipta innan þess ramma. Það að hluti af þakinu séu stýrivextir Seðlabankans gerir að verkum að ef verðlagsþróun verður mjög ör, verðbólga mikil í skamman tíma eða lengri, þá er þakið þannig hannað að það mætir því, að minnsta kosti að svo miklu leyti sem stýrivextir Seðlabankans fylgja verðlagsþróuninni. Þá hækkar þakið eftir því sem stýrivextir Seðlabankans hækka. Því má tala um breytilegt þak á vexti og gerir nefndin ekki tillögur um sérstakar breytingar á því þaki sem lagt var til. Það viðhorf kom þó fram og það er ástæðan fyrir því að einn hv. þingmanna meiri hlutans hefur fyrirvara á nefndarálitinu, Árni Þór Sigurðsson. Hann hefði viljað ganga lengra í því að setja skorður við þeim kostnaði sem má innheimta af neytendum og fara með þakið niður fyrir 50%, en því mun hann lýsa í umræðunni sjálfur síðar.

Meiri hlutinn gerði ýmsar breytingar á tillögum frumvarpsins, meðal annars sem lutu að greiðslumati. Nokkrar áhyggjur voru af því að það ferli allt gæti verið of þungt eða hamlað of mikið eðlilegri lánastarfsemi og því sem hér hefur viðgengist, en lögð er áhersla á að lánveitendur eigi að meta greiðsluhæfi þeirra sem eiga að fá lán. Nefndin leggur til að þau mörk sem lánveitingin þarf að fara yfir séu tvöfölduð til að þau kalli á greiðslumat og séu fyrir einstakling 2 millj. kr. en fyrir hjón 4 millj. kr.

Nefndin gerir ýmsar aðrar breytingartillögur sem eru út af fyrir sig ekki veigamiklar, aðrar en þær sem snúa að árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Það atriði hefur verið nokkuð til umfjöllunar undanfarið, meðal annars í framhaldi af svari frá Evrópusambandinu til Elviru Méndez í lagadeild Háskóla Íslands sem spurðist fyrir um ýmis atriði er lúta að framkvæmd verðtryggðra lána hér á Íslandi. Áður en þau svör höfðu borist hafði meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar kynnt þá niðurstöðu sína í nefndinni að rétt sé að neytendum sé gerð grein fyrir kostnaðinum við verðbætur þegar gerð er grein fyrir kostnaði við lántöku. Þá eigum við við að ekki sé nóg að upplýsa neytandann um hvað afborgunin og vextirnir og innheimtukostnaður og aðrir slíkir þættir munu kosta hann, heldur þurfi líka að sýna honum hvaða kostnaður fylgi verðbótaþætti lántökunnar, ef um verðtryggt lán er að ræða, og ekki út frá verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem er umtalsvert undir þeirri verðbólgu sem hér hefur verið lengst af, heldur væri miðað við verðbólguna eins og hún er á hverjum tíma. Ef það er 5% verðbólga og árlegur kostnaður án verðbótaþáttar er 5% þá þarf að sýna hinn árlega kostnað við lántökuna sem 10%, þ.e. 5% vegna verðbótanna og 5% vegna vaxtaafborgana og annars kostnaðar. Neytandanum þarf að vera algerlega ljós allur kostnaður sem er við lántökuna. Að mörgu leyti svipar verðtryggingu og raunvöxtum samanlagt til breytilegra vaxta, þó það sé nokkuð eðlisólíkt, og eðlilegt að sá kostnaður sé allur sýndur eins og í tilfelli lána með breytilegum vöxtum. Bæði er það tilgangur hinna evrópsku tilskipana sem eiga að tryggja réttindi neytenda að neytandinn sé upplýstur um allan kostnað við lántökuna og verðbætur eru klárlega kostnaður við lántöku að mati meiri hlutans. Einnig er tilgangurinn með árlegri hlutfallstölu kostnaðar augljóslega sá að auðvelda neytanda samanburð. Ef hann á að bera saman óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum annars vegar og verðtryggð lán með raunvöxtum hins vegar þá er grundvallaratriði að inni í árlegri hlutfallstölu kostnaðar við verðtryggða lánið sé verðbólgan eins og hún er á hverjum tíma, ella mun verðtryggða lánið alltaf virðast vera miklu ódýrara heldur en óverðtryggt lán með breytilegum vöxtum, ef verðbótaþættinum er einfaldlega sleppt. Það mundi skekkja allan samanburð og leiða til þess að fleiri tækju verðtryggð lán í þeirri trú að þau væru ódýrari en aðrir valkostir á markaðnum vegna þess að hin árlega hlutfallstala kostnaðar sem væri gefin upp lögum samkvæmt væri svo miklu lægri á verðtryggðum lánum heldur en á óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum.

Nú er það ekki hlutverk nefndarinnar að skera úr um hvort framkvæmdin hafi að þessu leyti verið lögmæt hingað til eða ekki, en augljóst er af afstöðu meiri hlutans að við teljum eðlilegt að þessi kostnaður, verðbæturnar, sé inni í árlegri hlutfallstölu kostnaðar og að neytandinn sé upplýstur um hann. Það er bæði til að neytandinn sé upplýstur um allan kostnað við lántöku og til þess að þær upplýsingar sem honum eru birtar um árlega hlutfallstölu kostnaðar ólíkra valkosta á markaði séu sambærilegar.

Nú er það auðvitað þannig að verðbólga breytist og það sem nefndin á eftir að fara yfir og mun fara yfir milli 2. og 3. umr. er með hvaða hætti sé rétt að neytandanum sé tilkynnt um það þegar vextir og/eða verðbótaþáttur hækkar frá því sem var þegar hann tók lánið. Er fullnægjandi að hann fái senda greiðslutilkynningu í pósti þar sem fram kemur í sérstökum reit að þessi þáttur hafi hækkað eða þarf að tilkynna honum það bréflega? Er nægilegt að gera það á vefsíðu? Á að gera það með eins mánaða fyrirvara, þriggja mánaða fyrirvara eða 12 mánaða fyrirvara? Allt eru þetta álitamál sem nefndin mun fara yfir milli 2. og 3. umr. en sú grundvallarafstaða liggur fyrir að upplýsa á neytandann um allan kostnað við lántökuna.

Eins og fram kom í máli mínu eru þetta meginbreytingarnar efnislega, en til þess að tryggja enn betur upplýsingar til neytenda er lögð áhersla á að upplýsingar um verðbólgu og kaupmáttarþróun, sem auðvitað hefur áhrif á það í hvaða færum fólk er til að standa í skilum með lán sín, séu birtar neytendum tíu ár aftur í tímann. Þá geta neytendur séð hver þróunin hefur verið sl. tíu ár þegar þeir meta hvort þeir eigi að taka lán til einhverra ára fram í tímann með slíkum tengingum, hvort heldur er breytilegum vöxtum eða verðtryggingu.

Í breytingartillögu meiri hlutans er jafnframt gert ráð fyrir að Neytendastofa fái heimildir til að beita tvöfalt hærri stjórnvaldssektum ef ekki er farið að lögunum. Þær fjárhæðir fari úr 10 milljónum í 20 milljónir, enda bendir ýmislegt til þess að Neytendastofu veiti ekki af að hafa handbær og haldbær tæki til að sjá til þess að fjármálafyrirtæki fylgi þeim fyrirmælum um framkvæmd lánveitinga sem í lögum eru hverju sinni.

Með þessum breytingum leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt en að málið verði tekið til frekari umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Það er í fyrsta lagi vegna þeirra þátta sem lúta að tilkynningum um breytingar á kjörum, í öðru lagi til að fara yfir þætti er lúta að gildistökunni og í þriðja lagi til að fara yfir sjónarmið sem varða samningssambandið milli lánveitanda og skuldara og þann ólíka hátt sem hafður er á í mismunandi löndum Evrópska efnahagssvæðisins.