141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

564. mál
[22:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við sem störfum í þinginu vitum að hæstv. ráðherra undirbýr sig vel fyrir mál og er sá ráðherra sem er duglegastur að taka þátt í umræðum, fylgjast með í þinginu og hann virðir þingið. Ég vil nota tækifærið þótt það tengist ekki málinu og þakka hæstv. ráðherra fyrir það.

Hæstv. ráðherra er auðvitað að tala fyrir merku máli ef ég skildi hann rétt en mér fannst kannski ekki alveg nógu skýrt í stuttri framsögu hans hvaða áhrif þetta spennandi mál hefur nákvæmlega á almenning í landinu. Hæstv. ráðherra nefndi samræmdar prófanir og merkingar en það er spurning hvort hann geti farið aðeins ítarlegar í hvað það þýðir fyrir almenning í landinu. Ég efast ekki um að það er til mikilla bóta en það var ekki nógu skýrt í stuttri framsögunni hver áhrifin eru á íslenska þjóð.

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og fara þess á leit við hæstv. ráðherra að hann setji okkur betur inn í málið því að margir fylgjast með umræðunni. Málið um textílvörur er spennandi og það væri áhugavert að heyra hæstv. ráðherra fara aðeins betur yfir það.