141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

564. mál
[22:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er snortinn yfir þeim hlýju orðum sem hv. þingmaður beindi til mín. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég geri mér far um að taka þátt í umræðum og reyna að greiða fyrir afgreiðslu þingmála eftir því sem mín léttvæga geta heimilar. Það kynni að hafa verið til bóta fyrir hv. þingmann ef hann hefði verið í salnum þegar þessi merka umræða hófst en hann skaust inn í hann rétt … (GÞÞ: Ég var hér.) eða mér sýndist það alla vega. Ég bið hv. þingmann velvirðingar ef ég er að núa honum því um nasir að hann hafi verið fjarstaddur sem hann var sannarlega ekki. (Gripið fram í.) Málin eru auðvitað misdjúprist og þetta er kannski ekki eitt af þeim sem nær dýpst. Hins vegar er mér sönn ánægja að skýra það örlítið betur fyrir hv. þingmanni.

Skilyrði fyrir því að hægt sé að markaðssetja textílvöru eru að trefjasamsetning hennar hafi verið merkt í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Það tryggir að hægt sé samkvæmt þar til gerðum stöðlum að framkvæma prófanir sem er nauðsynlegt að gera til að staðreyna hvort trefjasamsetning þeirra umræddu textílvara sé í samræmi við upplýsingarnar sem er að finna á merkimiða vörunnar. Ég þarf ekki að skýra það út fyrir hv. þingmanni, sem hefur svona öðrum fremur gleggri skil á eðli og gangvirki markaða, hversu mikilvægt er að sá sem kaupir vöru geti verið fullviss um að hann sé ekki að kaupa kött í sekk.