141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 217/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[22:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það mál sem ég flyt hér er kannski ekki jafndjúpt og merkilegt og það sem ég reifaði áðan, en eigi að síður er það svipaðs eðlis. Hér mæli ég fyrir tillögu til þingsályktunar þar sem leitað er heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir hönd Íslands ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem að þessu sinni er nr. 217/2012. Hún er um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn. Hann fjallar um tæknilegar reglugerðir, staðlaprófanir og vottun og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, sem er númeruð 210/30/ESB, um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum sem greina frá notkun viðkomandi varnings á orku. Markmiðið er að stuðla að því að orka sé notuð á skynsamlegan og hagkvæman hátt með því að tryggja að neytendur hafi jafnan greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem nýta orku.

Tilskipunin leggur skyldur á herðar þeim sem markaðssetur vöru, að hann láti neytendum jafnan í té upplýsingar um orkunotkun vörunnar sem seld er eða leigð og sömuleiðis hversu nýtinn sá tiltekni varningur er af orku.

Innleiðing á tilskipuninni kallar á breytingar á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. Fyrirhugað er að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra leggi fram frumvarp til slíkra laga til innleiðingar á tilskipuninni á næsta löggjafarþingi.

Sú tilskipun er hluti af stærri lagaramma. Hún felur í sér auknar kröfur til eftirlits. Neytendastofa mun í flestum tilvikum fara með eftirlit með merkingum og upplýsingaskyldu varðandi þær vörur sem í þennan flokk falla, þ.e. vörur sem nýta orku. Tilskipunin eykur umfang eftirlitsins því að hún tekur til fleiri tegunda af varningi en eldri tilskipun um sama efni, eins og reifað er ítarlegar í tillögunni. Reynslan sýnir að auka þarf eftirlitsheimildir Neytendastofu og jafnframt að tryggja þarf mannafla svo hægt sé að sinna eftirlitinu. Til þess telur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að þurfi auknar fjárheimildir.

Innleiðingin kallar jafnframt á aukna upplýsingagjöf fyrirtækja sem framleiða, flytja inn og selja vörur sem nýta orku. Þar sem ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er hér óskað eftir samþykki þingsins fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að aflétta megi þeim stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar umræðu lýkur um málið verði því sem hinum fyrri vísað til hv. utanríkismálanefndar.