141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Enn mæli ég fyrir þingsályktunartillögu þar sem er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir hönd Íslands ákvörðun hinnar sameiginlegu EES-nefndar nr. 229/2012, um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn. Hann fjallar um neytendavernd. Sömuleiðis felst í tillögunni að inn í samninginn verði felld tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/90/ESB.

Með tilskipuninni er gerð breyting á fyrri tilskipun ESB, sem varðar lánasamninga fyrir neytendur. Breytingin felst í því að þær viðbótarforsendur sem miða skal við við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar vegna lánasamninga verða nokkuð ítarlegri en áður. Þarna er sem sagt verið að skýra betur skuldbindingar sem lántakendur axla með samningnum. Hv. þm. Helgi Hjörvar fór mjög ítarlega yfir það áðan í framsögu sinni fyrir þeim lagabálki sem málið tengist. Það er einmitt það frumvarp sem hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagði fram fyrr á þessu löggjafarþingi til laga um neytendalán, samanber þskj. 228. Ef frumvarpið verður að lögum óbreytt er komin viðhlítandi lagastoð til innleiðingar á tilskipuninni. Ekki er gert ráð fyrir að teljanlegur kostnaður hljótist af innleiðingu hennar hér á landi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar var hún, eins og hinar tvær fyrri sem ég hef hér reifað í kvöld, tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað hér eftir samþykki Alþingis til þess að aflétta megi þeim fyrirvara.

Legg til, frú forseti, að þegar þingmenn hafa rætt nægju sína um málið verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.