141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það séu skynsamleg vinnubrögð að fá umsögn og álit efnahags- og viðskiptanefndar á málinu. Hún hefur unnið að því að fjalla um frumvarpið sem hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagði fram, eins og kom skýrt fram hér í kvöld og við höfum heyrt miklar umræður um í fréttum. Verið er að lesa það saman við t.d. þær ályktanir sem menn drógu af bréfi framkvæmdastjórnarinnar til Elviru Méndez Pinedo. Það bréf varðar að vísu ekki þá neytendatilskipun sem ályktunin tengist, þ.e. innleiðingin varðar aðra neytendalánatilskipunina. Lögin sem í gildi eru og sem spurt var um í bréfi viðkomandi einstaklings til framkvæmdastjórnarinnar varða sem sagt einungis fyrstu neytendatilskipunina. Helsta breytingin er, og það kemur fram í greinargerð þingsályktunartillögunnar, að tilskipunin gerir kröfu um að það sé skýrt miklu betur út fyrir neytendum en kröfur voru gerðar um í fyrri tilskipuninni hvers konar kostnaður kann að falla á þau lán sem viðkomandi tekur. Var sérstaklega talað um að þótt verðtrygging sé síður en svo bönnuð samkvæmt reglum og tilskipunum verður kostnaðurinn sem tengist verðbótum að koma inn í hina árlegu hlutfallstölu.

Ýmislegt fleira kemur þarna fram sem hnígur allt að þeim ósi að tryggja betur stöðu neytandans. Það eru meginbreytingarnar í þessu. Meira að segja kemur fram í fylgiskjali við viðauka sem er að finna í tillögunni að menn eru þeirrar skoðunar að fyrri tilskipanir hafi ekki gert nógu ítarlegar kröfur að þessu leyti til.